Óskar Hrafn tjáði sig í fyrsta sinn um viðskilnaðinn við Haugseund í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í gær í kringum leik Breiðabliks og Víkings Reykjavíkur í Bestu deild karla þar sem að hann var mættur sem sérfræðingur.
Óskar tók við þjálfun Haugesund í október í fyrra og vakti það því mikla athygli þegar að hann hætti óvænt störfum hjá félaginu fyrr í þessum mánuði. Ríkharð Óskar Guðnason spurði Óskar út í viðskilnaðinn í beinni útsendingu í gær:
„Stutta svarið er það að mér fannst ekki allir ganga í takt hjá félaginu. Mér fannst ég feta annan veg heldur en margir aðrir þarna. Á endanum komst ég að þeirri niðurstöðu að það væri best fyrir mig að fara,“ sagði Óskar Hrafn.
Óskar hafði það á tilfinningunni að Sancheev Manoharan, þáverandi aðstoðarþjálfari Haugesund sem hefur nú verið ráðinn aðalþjálfari liðsins, hafi verið að vinna gegn sér.
„Jájá, það var mín tilfinning. Ef þú myndir spyrja hann myndi hann segja eitthvað annað. Þetta er tilfinning á móti tilfinningu,“ sagði Óskar Hrafn.
Segist ekki hafa unnið gegn Óskari
Og téður Manoharan hefur nú svarað þessum ummælum Óskars Hrafns í norskum fjölmiðlum.
„Ég get ekkert lagt mat á tilfinningar Óskar, það er hans eigin skilningur á aðstæðunum. En það sem að ég get sagt með hundrað prósent vissu er að að hvorki ég, né aðrir í starfsteyminu, vorum að vinna gegn Óskari. Þvert á móti.“
Innri skoðun hafi tekið við hjá Haugesund eftir brotthvarf Óskars.
„Hvorki ég né restin af starfsteyminu hefðum fengið að taka við þjálfun liðsins að fullu til frambúðar hefði það komið í ljós að við hefðum verið að vinna gegn Óskari.“
Martin Fauskanger, stjórnandi hjá Haugesund tekur undir orð Manoharan.
„Við höfum farið náið í saumana á tímabilinu frá því að Óskar var ráðinn og þangað til að hann sagði upp störfum. Við sem félag sjáum ekkert sem bendir til þess að það hafi verið unnið gegn honum. Hvorki hvað varðar Manoharan eða restina af þjálfarateymi liðsins. Manoharan studdi hugmyndafræði Óskars.“