Sport

Djokovic dregur sig úr keppni og missir efsta sætið til Sinner

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Djokovic rann til í öðru settinu og virtist sárþjáður en tókst að klára leikinn. Myndatökur leiddu svo í ljós að hann hefði rifið liðþófa. 
Djokovic rann til í öðru settinu og virtist sárþjáður en tókst að klára leikinn. Myndatökur leiddu svo í ljós að hann hefði rifið liðþófa.  Christian Liewig - Corbis/Getty Images

Novak Djokovic mun detta úr efsta sæti heimslistans í tennis eftir að hafa dregið sig úr keppni á opna franska meistaramótinu vegna meiðsla sem hann varð fyrir á leirvellinum við Roland Garros.

Djokovic meiddist á hné í 16-liða úrslitum þegar hann sló út Argentínumanninn Francisco Cerundolo. Hann rann til í öðru settinu en gat haldið leik áfram eftir að hafa innbyrt töluvert magn af verkjalyfjum.

Eftir myndatökur kom í ljós að Djokovic hafi rifið liðþófa í hægra hné. Hann neyddist því til að draga sig úr keppni og mun ekki mæta Norðmanninum Casper Ruud í 8-liða úrslitum í dag eins og stóð til.

Ruud fer sjálfkrafa áfram í undanúrslit og mætir þar annaðhvort Alex de Minaur eða Alexander Zverev.

Djokovic mun missa efsta sætið á heimslistanum til Ítalans Jannik Sinner, sem komst áfram í undanúrslit í gær. 

Sömuleiðis mun Djokovic ekki geta bætt við eigið sigramet á alslemmumótum (Grand Slam), hann hefur 24 sinnum fagnað sigri og fær annað tækifæri á 25. titlinum þegar Wimbledon mótið hefst þann 1. júlí, hafi hann náð heilsu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×