Fótbolti

Ætlar ekki að tapa á móti Ís­landi:  „Síðasti leikur fyrir EM og við erum til­búnir“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Tijjani Reijnders á æfingu með hollenska landsliðinu í gær, degi fyrir leikinn gegn Íslandi.
Tijjani Reijnders á æfingu með hollenska landsliðinu í gær, degi fyrir leikinn gegn Íslandi. ANP via Getty Images

Tijjani Reijnders, miðjumaður AC Milan og hollenska landsliðsins, segir sigur Íslands gegn Englandi hafa sett Hollendinga upp á tærnar fyrir leik kvöldsins. 

Holland og Ísland mætast í vináttuleik á De Kuip leikvanginum í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 18:45 og verður í opinni dagskrá. Upphitun og útsending á Stöð 2 Sport hefst 18:15. 

Hollendingar hituðu upp fyrir Ísland með stórsigri gegn Kanada í vináttuleik síðasta fimmtudag. 

„Tilfinningin er góð. Við náðum flottum úrslitum gegn Kanada í síðasta leik. Síðasti leikur fyrir EM og við erum tilbúnir, Ísland er erfitt viðureignar en við erum klárir,“ sagði Tijjani í spjalli við Val Pál Eiríksson. 

Það kom honum aðeins á óvart að Ísland skyldi hafa unnið England síðasta föstudag á Wembley. Hann segir þetta hafa sett hollenska liðið upp á tærnar. 

„Já það gerði það svolítið. England er eitt af sigurstranglegri liðum mótsins þannig að þetta voru frábær úrslit fyrir Ísland og skerpti bara á okkur.“

Það sást á Englendingum hversu súrt það getur verið að tapa síðasta leiknum fyrir stórmót. Fjölmiðlar þar í landi og landsmenn margir virtust gefa upp vonina á titli. Tijjani segir því mikilvægt fyrir Holland að enda á hápunkti í kvöld. 

„Ég vona að við endum þetta á sigri svo andinn í áhorfendum verði ennþá betri fyrir mótið. Við erum klárir og ánægðir að spila á heimavelli á morgun. Við erum með góðan hóp, öllum semur vel og allir vita hvað markmiðið er. Við viljum sýna það og njóta þess að spila.“


Tengdar fréttir

Stjarna Hollendinga ekki með gegn Íslandi

Hollenska karlalandsliðið í fótbolta verður án stórstjörnu sinnar Frenkie de Jong er liðið mætir Íslandi í æfingaleik í Rotterdam annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×