Skoðun

Það eru lög í landinu

Líneik Anna Sævarsdóttir skrifar

Hér á landi hefur ÁTVR einkaleyfi til afhendingar og smásölu áfengis. Markmið laga um verslun með áfengi eru m.a. að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis sem byggist á bættri lýðheilsu, samfélagslegri ábyrgð og vernd ungs fólks. Þannig er einkasölufyrirkomulag áfengis liður í forvarnastefnu og lögin eru skýr sama hversu oft sem því er haldið fram að þau séu óskýr. Ef breyta á sölufyrirkomulaginu hér á landi þarf það að gerast eftir lýðræðislega umræðu og lagasetningu, slík ákvörðun er ekki í höndum verslana án samhengis við forvarnarstefnu.

Hvers vegna stýrt aðgengi?

Alþjóðlegar leiðbeiningar um forvarnir mæla með stýrðu aðgengi að áfengi. Vinna að forvörnum er margþætt verkefni sem snertir öll svið samfélagsins. Forvarnarvinna er ekki eins og hlaðborð þar sem hægt er velja eina aðgerð eða eina leið til að ná árangri. Vinna að forvörnum er miklu frekar eins og vefur eða net þar sem hver þráður þarf að halda. Ef einn þráður slitnar hefur það áhrif á öll önnur verkefni í vefnum.

Þrátt fyrir einkasöluna hefur aðgengi að áfengi á Íslandi aukist gríðarlega mikið síðustu áratugi. Sérfræðingar í lýðheilsu hafa síðustu vikur bent á birtingarmyndir áhrifa aukins aðgengis að áfengi á lýðheilsu fullorðinna s.s. að hópurinn sem drekkur áfengi flesta daga stækkar og drykkja á mann, mæld í hreinum vínanda, eykst með ýmsum fylgikvillum. Áfengi er einn af fjórum algengustu áhættuþáttum langvinnra sjúkdóma og hefur t.d. orðið sjöföldun á áfengistengdum lifrarsjúkdómum á 20 árum. Þá eru komnar fram vísbendingar um vaxandi drykkju ungmenna, sem verður að teljast verulegt áhyggjuefni.

Ætlum við að glopra niður góðum árangri?

Rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á með afgerandi hætti að aukið aðgengi að áfengi hefur slæm áhrif á heilsufar einstaklinga auk þess að hafa neikvæðar félagslegar afleiðingar.

Fyrr í mánuðinum skrifaði okkar helsti sérfræðingur í lyf- og fíknilækningum, Valgerður Rúnarsdóttir, grein á Vísi þar sem hún spyr: „Í alvöru, krakkar! Ætlum við að hafa þetta svona? Að láta lýðheilsu framtíðar lönd og leið ef einhverjir geta makað krókinn í dag?“

Ég tek heilshugar undir hennar spurningar. Það er horft til markverðs árangurs Íslendinga við að draga úr áfengisneyslu barna og ungmenna með áratuga vinnu. Stýrt aðgengi, há skattlagning ásamt fræðslu og samvinnu skólasamfélaga í gegnum íslenska forvarnarmódelið hafa skilað þessum árangri. Hættan er að missa þetta allt niður – málið er einfalt, það þarf að fara að áfengislögum og stöðva „gervinetsölu“ annars slítum við forvarnarvefinn.

Höfundur er þingmaður Framsóknar.




Skoðun

Sjá meira


×