Hinn 44 ára gamli Ronaldo de Assis Moreira, betur þekktur sem Ronaldinho, var á sínum tíma besti leikmaður heims. Frægðarsól hans reis hvað hæst þegar hann spilaði með Barcelona árin 2003 til 2008 en hann varð jafnframt heimsmeistari með Brasilíu á HM í Japan og Suður-Kóreu árið 2002.
Alls spilaði hann 97 A-landsleiki á ferli sínum og í raun aldrei verið langt undan þegar brasilíska landsliðið er að spila. Það er þangað til nú. Það styttist í að Suður-Ameríkukeppnin fari af stað en Ronaldinho ætlar sér ekki að horfa á einn leik með Brasilíu.
„Ég hef fengið nóg. Þetta er sorglegt augnablik fyrir þau sem elska brasilíska landsliðið. Það er erfitt að finna viljann til að horfa á leiki. Þetta er eitt versta lið sem Brasilíu hefur boðið upp á undanfarin ár, engir virðingarverðir leiðtogar og í raun ekkert nema miðlungs leikmenn,“ sagði landsliðsmaðurinn fyrrverandi um stöðu mála í brasilíska landsliðinu.
Ronaldinho on Instagram does NOT hold back on Brazil. 🤯🇧🇷 pic.twitter.com/MgpiTy2L3e
— Football Tweet ⚽ (@Football__Tweet) June 15, 2024
Hann var þó ekki hættur.
„Ég man ekki til þess að staðan hafi verið verri. Það vantar alla ástríðu fyrir treyjunni sem og alla ástríðu fyrir góðum fótbolta.“
„Frammistöður okkar hafa verið einhverjar þær verstu sem ég hef séð. Það er synd og skömm,“ sagði Ronaldinho að endingu.
Brasilía er í D-riðli Suður-Ameríkukeppninnar ásamt Kólumbíu, Paragvæ og Kosta Ríka.