Yamal skoraði sannkallað draumamark þegar Spánverjar tryggðu sér sæti í úrslitum EM með sigrinum á Frökkum á Allianz Arena í München í gær. Hann er yngsti markaskorari í sögu Evrópumótsins, sextán ára og 362 daga gamall.
Yamal fæddist 13. júlí 2007. Sex mánuðum síðar sat hann fyrir á myndum með hinum þá tvítuga Messi. Myndatakan var fyrir góðgerðadagatal á vegum Barcelona og dagblaðsins Sport.
Myndirnar, sem Joan Monfort tók, hafa nú verið dregnar fram í sviðsljósið eftir frábæra frammistöðu Yamals á EM. Á myndunum heldur Messi á sex mánaða gömlum Yamal og baðar hann. Mamma Yamals er svo með á einni mynd.
🚨🇪🇸🇦🇷 Lionel Messi with Lamine Yamal as a baby back in December 2007, from Spanish newspaper @sport.
— EuroFoot (@eurofootcom) July 5, 2024
It was a photoshoot organised for a charity calendar. pic.twitter.com/C7jCKbYnp7
Líkt og Yamal stendur Messi í ströngu þessa dagana, með argentínska landsliðinu í Suður-Ameríkukeppninni í Bandaríkjunum. Argentínumenn eru komnir í undanúrslit þar sem þeir mæta Kanadamönnum.
Þess má geta að faðir Yamals er þremur árum yngri en Messi. Argentínski snillingurinn er fæddur 1987 en faðir Yamals 1990. Hann er frá Marokkó en móðirin frá Miðbaugs-Gíneu.
Fjölskylda Yamals fluttist til Barcelona þegar hann var sjö ára og hann fylgdist því með Messi fara á kostum með stærsta liði borgarinnar áður en hann byrjaði sjálfur að spila fyrir það.