Erlent

Svona var vett­vangur á­rásarinnar

Jón Þór Stefánsson skrifar
Svona mun vettvangur árásarinnar hafa verið við bæinn Butler í Pennsylvaníuríki.
Svona mun vettvangur árásarinnar hafa verið við bæinn Butler í Pennsylvaníuríki. Google Earth/Vísir/Jón Þór

Skotárás sem beindist að Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta í gærkvöldi var framin á fjölmennum kosningafundi í Pennsylvaníuríki, nánar tiltekið á vinsælum samkomustað við bæinn Butler.

Samkomustaðurinn heitir Butler Farm Show Grounds í höfuðið á hátíðinni Butler Farm Show sem hefur verið haldinn á svæðinu í rúmlega sjötíu ár.

Á skýringarmynd sem má sjá hér að ofan má sjá vettvang árásarinnar eins og honum er lýst í fjölmiðlum vestanhafs. Þess má geta að miðlarnir eru ekki allir á sama máli um ýmsar staðsetningar, en þar má aðallega nefna staðsetningu skyttu sem felldi árásarmanninn og hvar áhorfendur sem særðust voru staðsettir. Við teikningu á myndinni hér að ofan var aðallega stuðst við teikningu New York Times.

Sviðið þar sem Trump var að halda ræðu þegar árásarmaðurinn hleypti af er táknað með stórum svörtum kassa. 

Kassinn er umkringdur öðrum svörtum kössum sem tákna stúkur þar sem áhorfendur fylgdust með. Í einni stúkunni særðist einn áhorfandi alvarlega, en einn lést og þrír slösuðust í árásinni með Trump meðtöldum.

Á þaki húss, sem hefur verið á hægri hönd Trumps, er talið að maður að nafni Thomas Matthew Crooks hafi hleypt af um það bil sex skotum. Eitt þeirra er sagt hafa hæft eyra Trumps. Þetta þak er táknað með rauðum punkti á myndinni, en myndefni frá vettvangi sýnir lík hans uppi á umræddu þaki.

Á öðru þaki, á hlöðu fyrir aftan Trump, voru skyttur bandarísku leyniþjónustunnar. Eftir að árásarmaðurinn skaut að Trump skaut skytta árásarmanninn sem lést vegna þess.

Trump hlaut minni háttar meiðsli á eyra og hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×