Markar leyfið stóran áfanga í þessu verkefni Landsvirkjunar en í kjölfarið mun fyrirtækið sækja um framkvæmdaleyfi hjá sveitarstjórn Rangárþings ytra þar sem virkjunin mun rísa og verður málið til umfjöllunar þar.
Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri segir vindmyllurnar geta náð 150 metra hæð og því megi gera ráð fyrir að þær verði nokkuð sýnilegar á nærliggjandi svæði. Til samanburðar er turn Hallgrímskirkju 74,5 metra hár og munu vindmyllurnar því verða á við tvær Hallgrímskirkjur.
Halla Hrund segir að verkefnið hafi farið í gegnum langt og strangt ferli og unnið hafi verið að því að takmarka áhrif vindorkuversins á nærumhverfi.
„Þetta er verkefni á vegum Landsvirkjunar, fyrsta stóra vindorkuverið hér á landi og gefur okkur kannski tækifæri til þess að ræða um vindorkumál í stærra samhengi út frá raunverulegu verkefni. Það er sannarlega þörf á því. Það eru ákaflega mörg verkefni í undirbúningi og gríðarlega mikilvægt að hafa langtímastefnumörkun um þessi mál,“ sagði Halla Hrund í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Svipað og þriðjungur raforkuþarfar höfuðborgarsvæðisins
Landsvirkjun hefur leyfi fyrir 120 megavatta raforkuframleiðslu í Búrfellslundi sem nemur um það bil þriðjungi allrar raforkunotkunar á höfuðborgarsvæðinu í dag, að sögn Höllu Hrundar. Það komi í hlut Landsvirkjunar að ákveða til hvaða aðila þessi orka yrði seld.
„Við finnum á Íslandi að þetta er stór og mikil auðlind, vindorkan sem við eigum. Við erum að stíga þarna ákveðin skref. Ég held að það sé ótrúlega mikilvægt að horfa á það hvar við viljum sjá þessi mannvirki og vonandi mun þetta verkefni nýtast til þess að stjórnmálamenn, almenningur átti sig á því hvað þessi verkefni þýða svo við getum verið skynsöm í uppbyggingunni til framtíðar,“ segir Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri.