Sagði Pétri Jökli að skipta um síma í snarheitum Kolbeinn Tumi Daðason skrifar 16. ágúst 2024 17:56 Snorri Sturluson héraðsdómslögmaður fann að rannsókn lögreglu og sagði engin bein sönnunargögn tengja Pétur Jökul Jónassonar við stóra kókaínmálið. Vísir Verjandi Péturs Jökuls Jónassonar í stóra kókaínmálinu telur lögreglu hafa farið fram úr sér þegar hún dró þá ályktun að huldumaður sem skipulagði innflutninginn héti Pétur. Í framhaldi hefði allt verið gert til að tengja Pétur Jökul við málið. Hann hafi ráðlagt Pétri Jökli að losa sig við símann sinn í Taílandi svo yfirvöld þar gætu ekki haft uppi á honum. Aðalmeðferð í stóra kókaínmálinu lauk í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Pétur Jökull er ákærður fyrir aðild að innflutningi á tæplega hundrað kílóum af kókaíni hingað til lands sumarið 2022. Fjórir hafa þegar hlotið dóma í málinu og telur lögregla að Pétur Jökull hafi verið í lykilhlutverki við skipulagningu innflutningsins og notast við ýmis huldunöfn á dulkóðaða samskiptamiðlinum Signal. Málflutningur í málinu fór fram í dag. Snorri Sturluson héraðsdómslögmaður tók til varna fyrir skjólstæðing sinn. Hann sagði engin bein sönnunargögn í málinu og krafðist sýknu. Hefði ekkert að fela Þegar hefur verið fjallað um málflutning Dagmarar Aspar Vésteinsdóttur saksóknara hér á Vísi og má kynna sér hann hér að neðan. Hún er sannfærð um sekt Péturs Jökuls og krefst að lágmarki sex og hálfs árs fangelsis yfir honum. Snorri rifjaði upp aðild sína að málinu eftir að lögregla hafði samband við hann með það fyrir augum að fá Pétur Jökul til landsins í skýrslutöku. Pétur Jökull var þá staddur í Taílandi. Snorri sagðist hafa verið tilbúin að aðstoða lögreglu við það en óskað eftir afriti af gögnum sem væru forsenda handtökuskipunar. Síðan hafi liðið ár. Loks hafi alþjóðalögreglan gefið út handtökuskipun á hendur honum í ársbyrjun 2024. Þá hefði Pétur Jökull haft samband við sig, Snorri rætt við lögreglu og Pétur sagst vilja gefa sig fram. Nú blasti við honum að málið væri miklu alvarlegra en hann hefði gert sér í hugarlund. Hann hefði ekkert að fela. „Hann vildi koma til Íslands og standa fyrir máli sínu,“ sagði Snorri. Sími með gögn í Taílandi? Snorri gerði athugasemdir við skort á beinum sönnunargögnum í málinu. Þá hefði lögregla gert athugasemdir við að þegar Pétur Jökull kom til landsins í febrúar síðastliðnum hefði hann verið með nýjan síma. Engin gögn hefðu fundist á honum. Hann hlyti því að hafa eitthvað að fela. Snorri þvertók fyrir það. Hann hefði raunar ráðlagt Pétri Jökli, þar sem hann var í Taílandi og óttaðist að lenda í fangelsi þar í landi, að losa sig við símtæki. Það hefði ekki gengið vel fyrstu dagana að búa þannig um hnútana að Pétur Jökull fengi að koma frjáls ferða sinna til landsins. Hann hafi sagt honum að skipta um síma svo yfirvöld ytra gætu ekki staðsett hann á meðan sá hnútur væri óleystur. Hann hafi gert það í samtali við Pétur í viðurvist lögreglumanna. Þegar þarna var komið við sögu greip Daði Kristjánsson dómari í málinu inn í og spurði Snorra hvort símtæki væri þá að finna í Taílandi sem gæti varpað ljósi á sakleysi Péturs Jökuls. Snorri svaraði því til að þar væru allavega ekki að finna gögn sem sýndu fram á sekt hans eða annað sem myndi gagnast í Stóra kókaínmálinu. Rauðbirkinn en ekki ljóshærður? Næst beindi Snorri sjónum sínu að Daða Björnssyni, lykilvitni í málinu sem hlaut fimm ára fangelsi í málinu. Daði ræddi við skýrslutöku um að hafa aðeins verið í samskiptum við einn mann sem héti Pétur. Hann væri stórgerður, ljóshærður og þrekvaxinn, hefði átt Stone Island peysu og fleira. Þetta væru ekki nákvæmar lýsingar að mati Snorra. Stone Island væri jafnalgengt vörumerki og 66°N á Íslandi og Pétur Jökull væri frekar rauðbirkinn en ljóshærður ef eitthvað væri. „Þessi lýsing getur átt við miklu fleiri en Pétur Jökul Jónasson,“ sagði Snorri. Þá væri ekkert víst að maðurinn héti Pétur þótt hann hafi kynnt sig sem Pétur í samskiptum við Daða. „Einstaklingur sem ætlar að fela sig og gefur upp nafn, ekki fullt nafn, gefur væntanlega ekki upp sitt eigið nafn. Hann hlýtur að gefa upp eitthvað allt annað nafn en sitt eigið!“ Annað væri ansi lélegur feluleikur. Glannaleg að fullyrða um „Pétur“ Þá setti Snorri út á varðandi það að Daði hefði verið spurður út í kaffihúsið Kaffi Loka við Lokastíg. Lögregla hefði nefnt kaffihúsið að fyrra bragði og spurningin því leiðandi. Þá hefði Daði í nýlegri skýrslutöku ekki kannast við Pétur Jökul þegar hann var spurður út í fréttir af því í upphafi árs að Pétur Jökull hefði komið til landsins frá Taílandi og verið handtekinn. Svo hefði hann aftur komið fyrir dóm, sagst standa við allt sem hann hefði sagt, hefði hitt manninn nokkrum sinnum, aðeins verið í samskiptum við hann en fyrir dómi einfaldlega svarað nei. Pétur Jökull væri ekki umræddur Pétur. „Það er mjög glannalegt að tala um það yfir höfuð að þessi maður heiti yfir höfuð Pétur. Það eru engar sannanir nema þessi orð Daða.“ Dómari hefði ítrekað spurninguna og Daði sagst ekki vita hver umræddur Pétur væri. Daði hefði svarað því játandi að hann myndi þekkja þann Pétur sem hann hefði verið í samskiptum við ef hann sæi hann aftur. Fleiri Íslendingar vafalítið í Brasilíu „Það er alveg ljóst að lykilvitni í málinu, sem ákæruvaldið byggir nánar allt sitt mál á, eiginlega eina beina sönnunargagnið í málinu, hefur komið fyrir dóm og gefið lögregluskýrslu um að „Pétur“ sé ekki „Pétur Jökull“. Staldra þurfi við það. Daði hafi aldrei breytt framburði sínum heldur staðið við hann. „Lögregla er með rangan mann. Þetta skiptir gríðarlegu máli.“ Snorri benti á að auk Daða hefðu Birgir Halldórsson og Jóhannes Páll Durr neitað að hafa átt í samskiptum við Pétur Jökul. Páll Jónsson timbursali sagðist aldrei hafa séð þann mann. Þá setti hann spurningarmerki við þá fullyrðingu saksóknara að Pétur Jökull hefði verið í Brasilíu þegar kókaínið var sett í gámana. Páll timbursali hefði rætt aðrar dagsetningar í því samhengi. Auk þess mætti fullyrða að fleiri Íslendingar hefðu verið í Brasilíu á þessum tíma og ekkert athugavert við veru Péturs Jökuls þar sem sagst hefur hafa ætlað að æfa bardagaíþróttir í Suður-Ameríkulandinu. Ekkert vitni tengi Pétur Jökul við málið og eini framburðurinn sé frá aðila um Pétur sem alls óvíst sé að heiti Pétur yfirhöfuð. Lögreglufulltrúi með ofurheyrn Þá fann Snorri að fullyrðingum lögreglumanns sem sagðist sannfærður að rödd Péturs Jökuls heyrðist í hleruðu samtali Daða Björnssonar við huldumann í iðnaðarhúsnæði við Gjáhellu í Hafnarfirði. Samtalið var spilað í dómssal og var mjög óskýrt. „Lögreglufulltrúinn var ekki spurður mikið en gat með miklu hlutleysi fullyrt að upptaka úr iðnaðarbilinu væri af Pétri Jökli Jónassyni,“ sagði Snorri í hæðnistón. „Þessi fullyrðing er með miklum ólíkindum nema lögreglufulltrúinn hafi ofurheyrn. Flest allir sem hlustuðu á þetta gátu varla grein mælt mál.“ Fann Snorri að hlutleysi lögreglu við rannsókn en mál ætti að rannsaka jafnt til sektar og sakleysis. Þá gerði hann miklar athugasemdir við símagögn lögreglu í miðbænum þar sem hann vildi meina að allt hefði verið reynt til að tengja Pétur Jökul við síma sem voru notaðir til að skipuleggja innflutninginn undir dulnefni. Þá væri ýmislegt sem mætti finna að ályktunum lögreglu á notendanöfnunum, hvenær samskipti hæfust og hættu, hvar þau ættu sér stað og hvenær. Raddgreining ekkert DNA Nefndi Snorri sérstaklega 7. júlí 2022 í því samhengi þar sem Pétur Jökull mætti á æfingu í World Class í Laugardal klukkan 15:12 en tveimur mínútum fyrr sendi notandi undir dulnefni skilaboð á Daða Björnsson að hann væri að fara á æfingu. Ekkert hefði komið upp í símagögnum varðandi ferðir huldumannsins í Laugardal þennan dag. Dómari í málinu benti á að því gætu verði eðlilegar skýringar, svo sem að Pétur Jökull hefði náð nettengingu í World Class en ekki notast við 4G. Snorri sagði fullkomlega ljóst að öll kort, staðsetningar á notendum dulnafna og önnur gögn væru algjörlega ómarktækt. Ekkert væri hægt að segja um tengsl þeirra. Þá hafi lögregla haft ýmis tækifæri til að styrkja rannsókn sína svo sem með myndbendingum, öflgun frekari gagna, myndum af grunuðum á flugvöllum eða í miðbæ Reykjavíkur, og nákvæmri rannsókn. Gaf Snorri lítið fyrir rannsókn lögreglu í málinu. Þá tók Snorri fyrir vitnisburð dansks raddgreiningarsérfræðings sem greindi hleraða samtal Daða Björnssonar við huldumann sem lögregla er sannfærð um að sé Pétur Jökull. Sérfræðingurinn talaði ekki íslensku, sem væri strax galli á rannsókninni, og þá væri rannsóknin mun frekar hlutlæg en vísindaleg. „Við getum ekki notað þetta eins og eitthvað DNA,“ sagði Snorri. Upptakan væri afar óskýr og sönnunargildið í skýrslu sérfræðingsins nákvæmlega ekki neitt. Plataður til að gefa hljóðdæmi Í því samhengi fann Snorri mjög að vinnbrögðum lögreglu. Hún hefði nýtt sér hljóðupptöku af Pétri Jökli í skýrslutöku þar sem hann hefði endurtekið neitað að tjá sig. Upptökur af þeim svörum hans hefðu verið nýttar til að bera saman við hleraða samtalið. „Í skýrslutöku hefurðu rétt á að neita að tjá þig. Þú getur líka krafist þess að samtalið verði ekki tekið upp í mynd. Þá verður það bara þannig í framtíðinni að menn hafna því að skýrslutakan verði tekin upp í hljóð og mynd,“ sagði Snorri. Annars væri verið að aðstoða lögreglu að búa til raddgreiningarsönnunargagn. „Þetta fordæmi sem við erum að setja hér mun leiða okkur á ranga braut.“ Pétur Jökull hefði greint strax frá því að ætla ekki að tjá sig en svo neyddur til að gera það endurtekið, svara hverri einustu spurningu þannig, og svarið nýtt sem sönnunargagn. Engar nýjar myndir? Snorri hélt áfram og sagði rannsókn málsins ekki standast kröfur um vandvirkni. Engin sakbending hefði farið fram og því borið við að ekki væri til nægjanlega ný mynd af Pétri Jökli. Þar hefði lögregla getað fundið mynd á Instagram til dæmis. Sú afsökun standist því ekki skoðun. Þá hefði verið hægt að finna nýlegar myndir af Pétri Jökli úr eftirlitsmyndakerfi á Keflavíkurflugvelli. „Það hefði hæglega getað sparað okkur síðustu sex mánuði ef Daði hefði verið spurður fyrr að því hvort þetta væri maðurinn.“ „Engin sönnunargögn“ Þá benti Snorri á að lögregla hefði fylgst mjög vel með ferðum Birgis Halldórssonar í málinu án þess nokkurn tímann að hafa séð til Péturs Jökuls Jónssonar. Samt hefði huldumaðurinn undir dulnefninu Harry sagst ætla að fara að Birgi. Það gæti vel verið að sami maðurinn væri á bak við dulnönin Harry, Nonna, Patron Cartoon, Trucker og Johnny Rotten. En það væri ekki Pétur Jökull. Það hefði ekki tekist að sanna. „Það eru engin sönnunargögn sem byggja má á til sakfellingar. Það má fara í lottóleik eins og saksóknari talar um en það gerum við ekki í sakamáli,“ sagði Snorri og vísaði til þess að Dagmar Ösp saksóknari sagði stjarnfræðilegar líkur, á við að vinna í lottói, að ekki væri um Pétur Jökul að ræða. Daði Kristjánsson dómari leggst nú yfir gögn málsins, skýrslutökur fyrir dómi og málflutninginn. Reikna má með dómi eftir um fjórar vikur. Hver sem niðurstaða Daða verður má fastlega gera ráð fyrir að málið fari á næsta dómstig, Landsrétt. Dómsmál Stóra kókaínmálið 2022 Fíkniefnabrot Mest lesið Styrktartónleikar á Hvolsvelli fyrir mikið slasaðan bónda Innlent „Hrikalegir“ biðlistar hjá golfklúbbum í höfuðborginni Innlent Kostnaður við nýja sánuklefa í Vesturbæ um 130 milljónir Innlent Kristrún á forsíðu Guardian: „Velferðarríki með ríkissjóð réttu megin við núllið“ Innlent Íbúar í Garði ósáttir við uppbyggingu á þekktu flóðasvæði Innlent „Mogginn er ekki flokksblað Framsóknarflokksins“ Innlent Íbúar upplifa sig svikna af Icelandair Innlent Stór skjálfti reið yfir í Ljósufjöllum Innlent „Ákæruvaldið þarf að útskýra þetta“ Innlent Danir hafi sofnað á verðinum og Trump að hræra í pottinum Innlent Fleiri fréttir Völlurinn geti orðið ónothæfur á köflum Fimm handteknir í sérsveitaraðgerð á Akureyri „Stórkostlega undarlegt“ að þekktir gerendur séu ekki ákærðir Stór skjálfti reið yfir í Ljósufjöllum Áhyggjur Icelandair af lokun flugbrautar og óþrjótandi píp-hljóð Mikilvægt að nýr formaður hafi breiða skírskotun Íbúar í Garði ósáttir við uppbyggingu á þekktu flóðasvæði Danir hafi sofnað á verðinum og Trump að hræra í pottinum Styrktartónleikar á Hvolsvelli fyrir mikið slasaðan bónda „Mogginn er ekki flokksblað Framsóknarflokksins“ Þrýstingur innan Framsóknar og veik staða Rússlands „Hrikalegir“ biðlistar hjá golfklúbbum í höfuðborginni Áhrif milljarðamæringa, áhugi á Grænlandi og brotthvarf Bjarna Kostnaður við nýja sánuklefa í Vesturbæ um 130 milljónir Lögreglan hljóp uppi ólátabelg í nótt Kristrún á forsíðu Guardian: „Velferðarríki með ríkissjóð réttu megin við núllið“ Vill að hægt verði að afturkalla alþjóðlega vernd „Ákæruvaldið þarf að útskýra þetta“ Ný leið fyrir ferðamenn með átta eldfjöllum Segir mótmælin ólögmæt og bótaskyldu til skoðunar Íbúar upplifa sig svikna af Icelandair Meint ólögmæt mótmæli og alþjóðleg vernd Þungt hljóð í sálfræðingum sem felldu samning í gær Stjórn Virðingar mótmælir ósönnum fullyrðingum í fjölmiðlum Fiskibátur í neyð í mynni Ólafsfjarðar Asískir ferðamenn virðist meðvitaðir þátttakendur í bókunarsvindli Lögregla kölluð til vegna mótmæla Eflingar í Kringlunni Sjálfstæðismenn ræða seinkun en Framsókn skoðar að flýta Strand í viðræðum og jákvæður þrýstingur frá Trump Þórdís vill ekki fresta landsfundi Sjá meira
Aðalmeðferð í stóra kókaínmálinu lauk í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Pétur Jökull er ákærður fyrir aðild að innflutningi á tæplega hundrað kílóum af kókaíni hingað til lands sumarið 2022. Fjórir hafa þegar hlotið dóma í málinu og telur lögregla að Pétur Jökull hafi verið í lykilhlutverki við skipulagningu innflutningsins og notast við ýmis huldunöfn á dulkóðaða samskiptamiðlinum Signal. Málflutningur í málinu fór fram í dag. Snorri Sturluson héraðsdómslögmaður tók til varna fyrir skjólstæðing sinn. Hann sagði engin bein sönnunargögn í málinu og krafðist sýknu. Hefði ekkert að fela Þegar hefur verið fjallað um málflutning Dagmarar Aspar Vésteinsdóttur saksóknara hér á Vísi og má kynna sér hann hér að neðan. Hún er sannfærð um sekt Péturs Jökuls og krefst að lágmarki sex og hálfs árs fangelsis yfir honum. Snorri rifjaði upp aðild sína að málinu eftir að lögregla hafði samband við hann með það fyrir augum að fá Pétur Jökul til landsins í skýrslutöku. Pétur Jökull var þá staddur í Taílandi. Snorri sagðist hafa verið tilbúin að aðstoða lögreglu við það en óskað eftir afriti af gögnum sem væru forsenda handtökuskipunar. Síðan hafi liðið ár. Loks hafi alþjóðalögreglan gefið út handtökuskipun á hendur honum í ársbyrjun 2024. Þá hefði Pétur Jökull haft samband við sig, Snorri rætt við lögreglu og Pétur sagst vilja gefa sig fram. Nú blasti við honum að málið væri miklu alvarlegra en hann hefði gert sér í hugarlund. Hann hefði ekkert að fela. „Hann vildi koma til Íslands og standa fyrir máli sínu,“ sagði Snorri. Sími með gögn í Taílandi? Snorri gerði athugasemdir við skort á beinum sönnunargögnum í málinu. Þá hefði lögregla gert athugasemdir við að þegar Pétur Jökull kom til landsins í febrúar síðastliðnum hefði hann verið með nýjan síma. Engin gögn hefðu fundist á honum. Hann hlyti því að hafa eitthvað að fela. Snorri þvertók fyrir það. Hann hefði raunar ráðlagt Pétri Jökli, þar sem hann var í Taílandi og óttaðist að lenda í fangelsi þar í landi, að losa sig við símtæki. Það hefði ekki gengið vel fyrstu dagana að búa þannig um hnútana að Pétur Jökull fengi að koma frjáls ferða sinna til landsins. Hann hafi sagt honum að skipta um síma svo yfirvöld ytra gætu ekki staðsett hann á meðan sá hnútur væri óleystur. Hann hafi gert það í samtali við Pétur í viðurvist lögreglumanna. Þegar þarna var komið við sögu greip Daði Kristjánsson dómari í málinu inn í og spurði Snorra hvort símtæki væri þá að finna í Taílandi sem gæti varpað ljósi á sakleysi Péturs Jökuls. Snorri svaraði því til að þar væru allavega ekki að finna gögn sem sýndu fram á sekt hans eða annað sem myndi gagnast í Stóra kókaínmálinu. Rauðbirkinn en ekki ljóshærður? Næst beindi Snorri sjónum sínu að Daða Björnssyni, lykilvitni í málinu sem hlaut fimm ára fangelsi í málinu. Daði ræddi við skýrslutöku um að hafa aðeins verið í samskiptum við einn mann sem héti Pétur. Hann væri stórgerður, ljóshærður og þrekvaxinn, hefði átt Stone Island peysu og fleira. Þetta væru ekki nákvæmar lýsingar að mati Snorra. Stone Island væri jafnalgengt vörumerki og 66°N á Íslandi og Pétur Jökull væri frekar rauðbirkinn en ljóshærður ef eitthvað væri. „Þessi lýsing getur átt við miklu fleiri en Pétur Jökul Jónasson,“ sagði Snorri. Þá væri ekkert víst að maðurinn héti Pétur þótt hann hafi kynnt sig sem Pétur í samskiptum við Daða. „Einstaklingur sem ætlar að fela sig og gefur upp nafn, ekki fullt nafn, gefur væntanlega ekki upp sitt eigið nafn. Hann hlýtur að gefa upp eitthvað allt annað nafn en sitt eigið!“ Annað væri ansi lélegur feluleikur. Glannaleg að fullyrða um „Pétur“ Þá setti Snorri út á varðandi það að Daði hefði verið spurður út í kaffihúsið Kaffi Loka við Lokastíg. Lögregla hefði nefnt kaffihúsið að fyrra bragði og spurningin því leiðandi. Þá hefði Daði í nýlegri skýrslutöku ekki kannast við Pétur Jökul þegar hann var spurður út í fréttir af því í upphafi árs að Pétur Jökull hefði komið til landsins frá Taílandi og verið handtekinn. Svo hefði hann aftur komið fyrir dóm, sagst standa við allt sem hann hefði sagt, hefði hitt manninn nokkrum sinnum, aðeins verið í samskiptum við hann en fyrir dómi einfaldlega svarað nei. Pétur Jökull væri ekki umræddur Pétur. „Það er mjög glannalegt að tala um það yfir höfuð að þessi maður heiti yfir höfuð Pétur. Það eru engar sannanir nema þessi orð Daða.“ Dómari hefði ítrekað spurninguna og Daði sagst ekki vita hver umræddur Pétur væri. Daði hefði svarað því játandi að hann myndi þekkja þann Pétur sem hann hefði verið í samskiptum við ef hann sæi hann aftur. Fleiri Íslendingar vafalítið í Brasilíu „Það er alveg ljóst að lykilvitni í málinu, sem ákæruvaldið byggir nánar allt sitt mál á, eiginlega eina beina sönnunargagnið í málinu, hefur komið fyrir dóm og gefið lögregluskýrslu um að „Pétur“ sé ekki „Pétur Jökull“. Staldra þurfi við það. Daði hafi aldrei breytt framburði sínum heldur staðið við hann. „Lögregla er með rangan mann. Þetta skiptir gríðarlegu máli.“ Snorri benti á að auk Daða hefðu Birgir Halldórsson og Jóhannes Páll Durr neitað að hafa átt í samskiptum við Pétur Jökul. Páll Jónsson timbursali sagðist aldrei hafa séð þann mann. Þá setti hann spurningarmerki við þá fullyrðingu saksóknara að Pétur Jökull hefði verið í Brasilíu þegar kókaínið var sett í gámana. Páll timbursali hefði rætt aðrar dagsetningar í því samhengi. Auk þess mætti fullyrða að fleiri Íslendingar hefðu verið í Brasilíu á þessum tíma og ekkert athugavert við veru Péturs Jökuls þar sem sagst hefur hafa ætlað að æfa bardagaíþróttir í Suður-Ameríkulandinu. Ekkert vitni tengi Pétur Jökul við málið og eini framburðurinn sé frá aðila um Pétur sem alls óvíst sé að heiti Pétur yfirhöfuð. Lögreglufulltrúi með ofurheyrn Þá fann Snorri að fullyrðingum lögreglumanns sem sagðist sannfærður að rödd Péturs Jökuls heyrðist í hleruðu samtali Daða Björnssonar við huldumann í iðnaðarhúsnæði við Gjáhellu í Hafnarfirði. Samtalið var spilað í dómssal og var mjög óskýrt. „Lögreglufulltrúinn var ekki spurður mikið en gat með miklu hlutleysi fullyrt að upptaka úr iðnaðarbilinu væri af Pétri Jökli Jónassyni,“ sagði Snorri í hæðnistón. „Þessi fullyrðing er með miklum ólíkindum nema lögreglufulltrúinn hafi ofurheyrn. Flest allir sem hlustuðu á þetta gátu varla grein mælt mál.“ Fann Snorri að hlutleysi lögreglu við rannsókn en mál ætti að rannsaka jafnt til sektar og sakleysis. Þá gerði hann miklar athugasemdir við símagögn lögreglu í miðbænum þar sem hann vildi meina að allt hefði verið reynt til að tengja Pétur Jökul við síma sem voru notaðir til að skipuleggja innflutninginn undir dulnefni. Þá væri ýmislegt sem mætti finna að ályktunum lögreglu á notendanöfnunum, hvenær samskipti hæfust og hættu, hvar þau ættu sér stað og hvenær. Raddgreining ekkert DNA Nefndi Snorri sérstaklega 7. júlí 2022 í því samhengi þar sem Pétur Jökull mætti á æfingu í World Class í Laugardal klukkan 15:12 en tveimur mínútum fyrr sendi notandi undir dulnefni skilaboð á Daða Björnsson að hann væri að fara á æfingu. Ekkert hefði komið upp í símagögnum varðandi ferðir huldumannsins í Laugardal þennan dag. Dómari í málinu benti á að því gætu verði eðlilegar skýringar, svo sem að Pétur Jökull hefði náð nettengingu í World Class en ekki notast við 4G. Snorri sagði fullkomlega ljóst að öll kort, staðsetningar á notendum dulnafna og önnur gögn væru algjörlega ómarktækt. Ekkert væri hægt að segja um tengsl þeirra. Þá hafi lögregla haft ýmis tækifæri til að styrkja rannsókn sína svo sem með myndbendingum, öflgun frekari gagna, myndum af grunuðum á flugvöllum eða í miðbæ Reykjavíkur, og nákvæmri rannsókn. Gaf Snorri lítið fyrir rannsókn lögreglu í málinu. Þá tók Snorri fyrir vitnisburð dansks raddgreiningarsérfræðings sem greindi hleraða samtal Daða Björnssonar við huldumann sem lögregla er sannfærð um að sé Pétur Jökull. Sérfræðingurinn talaði ekki íslensku, sem væri strax galli á rannsókninni, og þá væri rannsóknin mun frekar hlutlæg en vísindaleg. „Við getum ekki notað þetta eins og eitthvað DNA,“ sagði Snorri. Upptakan væri afar óskýr og sönnunargildið í skýrslu sérfræðingsins nákvæmlega ekki neitt. Plataður til að gefa hljóðdæmi Í því samhengi fann Snorri mjög að vinnbrögðum lögreglu. Hún hefði nýtt sér hljóðupptöku af Pétri Jökli í skýrslutöku þar sem hann hefði endurtekið neitað að tjá sig. Upptökur af þeim svörum hans hefðu verið nýttar til að bera saman við hleraða samtalið. „Í skýrslutöku hefurðu rétt á að neita að tjá þig. Þú getur líka krafist þess að samtalið verði ekki tekið upp í mynd. Þá verður það bara þannig í framtíðinni að menn hafna því að skýrslutakan verði tekin upp í hljóð og mynd,“ sagði Snorri. Annars væri verið að aðstoða lögreglu að búa til raddgreiningarsönnunargagn. „Þetta fordæmi sem við erum að setja hér mun leiða okkur á ranga braut.“ Pétur Jökull hefði greint strax frá því að ætla ekki að tjá sig en svo neyddur til að gera það endurtekið, svara hverri einustu spurningu þannig, og svarið nýtt sem sönnunargagn. Engar nýjar myndir? Snorri hélt áfram og sagði rannsókn málsins ekki standast kröfur um vandvirkni. Engin sakbending hefði farið fram og því borið við að ekki væri til nægjanlega ný mynd af Pétri Jökli. Þar hefði lögregla getað fundið mynd á Instagram til dæmis. Sú afsökun standist því ekki skoðun. Þá hefði verið hægt að finna nýlegar myndir af Pétri Jökli úr eftirlitsmyndakerfi á Keflavíkurflugvelli. „Það hefði hæglega getað sparað okkur síðustu sex mánuði ef Daði hefði verið spurður fyrr að því hvort þetta væri maðurinn.“ „Engin sönnunargögn“ Þá benti Snorri á að lögregla hefði fylgst mjög vel með ferðum Birgis Halldórssonar í málinu án þess nokkurn tímann að hafa séð til Péturs Jökuls Jónssonar. Samt hefði huldumaðurinn undir dulnefninu Harry sagst ætla að fara að Birgi. Það gæti vel verið að sami maðurinn væri á bak við dulnönin Harry, Nonna, Patron Cartoon, Trucker og Johnny Rotten. En það væri ekki Pétur Jökull. Það hefði ekki tekist að sanna. „Það eru engin sönnunargögn sem byggja má á til sakfellingar. Það má fara í lottóleik eins og saksóknari talar um en það gerum við ekki í sakamáli,“ sagði Snorri og vísaði til þess að Dagmar Ösp saksóknari sagði stjarnfræðilegar líkur, á við að vinna í lottói, að ekki væri um Pétur Jökul að ræða. Daði Kristjánsson dómari leggst nú yfir gögn málsins, skýrslutökur fyrir dómi og málflutninginn. Reikna má með dómi eftir um fjórar vikur. Hver sem niðurstaða Daða verður má fastlega gera ráð fyrir að málið fari á næsta dómstig, Landsrétt.
Dómsmál Stóra kókaínmálið 2022 Fíkniefnabrot Mest lesið Styrktartónleikar á Hvolsvelli fyrir mikið slasaðan bónda Innlent „Hrikalegir“ biðlistar hjá golfklúbbum í höfuðborginni Innlent Kostnaður við nýja sánuklefa í Vesturbæ um 130 milljónir Innlent Kristrún á forsíðu Guardian: „Velferðarríki með ríkissjóð réttu megin við núllið“ Innlent Íbúar í Garði ósáttir við uppbyggingu á þekktu flóðasvæði Innlent „Mogginn er ekki flokksblað Framsóknarflokksins“ Innlent Íbúar upplifa sig svikna af Icelandair Innlent Stór skjálfti reið yfir í Ljósufjöllum Innlent „Ákæruvaldið þarf að útskýra þetta“ Innlent Danir hafi sofnað á verðinum og Trump að hræra í pottinum Innlent Fleiri fréttir Völlurinn geti orðið ónothæfur á köflum Fimm handteknir í sérsveitaraðgerð á Akureyri „Stórkostlega undarlegt“ að þekktir gerendur séu ekki ákærðir Stór skjálfti reið yfir í Ljósufjöllum Áhyggjur Icelandair af lokun flugbrautar og óþrjótandi píp-hljóð Mikilvægt að nýr formaður hafi breiða skírskotun Íbúar í Garði ósáttir við uppbyggingu á þekktu flóðasvæði Danir hafi sofnað á verðinum og Trump að hræra í pottinum Styrktartónleikar á Hvolsvelli fyrir mikið slasaðan bónda „Mogginn er ekki flokksblað Framsóknarflokksins“ Þrýstingur innan Framsóknar og veik staða Rússlands „Hrikalegir“ biðlistar hjá golfklúbbum í höfuðborginni Áhrif milljarðamæringa, áhugi á Grænlandi og brotthvarf Bjarna Kostnaður við nýja sánuklefa í Vesturbæ um 130 milljónir Lögreglan hljóp uppi ólátabelg í nótt Kristrún á forsíðu Guardian: „Velferðarríki með ríkissjóð réttu megin við núllið“ Vill að hægt verði að afturkalla alþjóðlega vernd „Ákæruvaldið þarf að útskýra þetta“ Ný leið fyrir ferðamenn með átta eldfjöllum Segir mótmælin ólögmæt og bótaskyldu til skoðunar Íbúar upplifa sig svikna af Icelandair Meint ólögmæt mótmæli og alþjóðleg vernd Þungt hljóð í sálfræðingum sem felldu samning í gær Stjórn Virðingar mótmælir ósönnum fullyrðingum í fjölmiðlum Fiskibátur í neyð í mynni Ólafsfjarðar Asískir ferðamenn virðist meðvitaðir þátttakendur í bókunarsvindli Lögregla kölluð til vegna mótmæla Eflingar í Kringlunni Sjálfstæðismenn ræða seinkun en Framsókn skoðar að flýta Strand í viðræðum og jákvæður þrýstingur frá Trump Þórdís vill ekki fresta landsfundi Sjá meira