Sport

Al­caraz fékk æðis­kast og möl­braut spaðann

Sindri Sverrisson skrifar
Carlos Alcaraz með spaðann, enn í heilu lagi, í leiknum við Gael Monfils.
Carlos Alcaraz með spaðann, enn í heilu lagi, í leiknum við Gael Monfils. Getty

Spænska tennisstjarnan Carlos Alcaraz missti gjörsamlega stjórn á skapi sínu þegar hann tapaði fyrir Frakkanum Gael Monfils í 16-manna úrslitum Cincinnati Open.

Novak Djokovic vann mótið á síðasta ári en dró sig úr keppni í ár, eftir að hafa unnið Alcaraz í úrslitaleik Ólympíuleikanna fyrr í þessum mánuði.

Alcaraz var því enn sigurstranglegri en ella en hann varð að sætta sig við tap strax í 2. umferð gegn Monfils, sem féll svo úr leik gegn Dananum Holger Rune.

Alcaraz, sem fyrr á þessu ári vann Wimbledon og Opna franska mótið, vann fyrsta settið gegn Monfiels, 6-4 en tapaði svo 7-6 og 6-4.

Hinn 21 árs gamli Alcaraz lét spaðann svo sannarlega finna fyrir því í oddasettinu, eftir að hafa lent 3-1 undir þar, eins og sjá má hér að neðan. Spaðinn gjöreyðilagðist þegar Alcaraz sló honum fast og ítrekað í jörðina, og er mjög óvanalegt að sjá Spánverjann missa svona stjórn á skapi sínu. Hann lýsti leiknum sem sínum versta á ferlinum.

„Mér leið stundum þannig að mig langaði til að brjóta spaðann. Það hefur ekki gerst áður því ég hef getað haft stjórn á mér í þessum aðstæðum,“ sagði Alcaraz eftir tapið.

„Í dag þá gat ég bara ekki hamið mig því mér fannst ég bara ekki vera að spila neina tegund af tennis. Mér leið eins og að þetta væri versti leikur sem ég hef spilað á ferlinum,“ sagði Alcaraz og bætti við:

„Ég gat bara ekki spilað. Alveg satt. Ég hef verið að æfa mjög vel hérna og liðið frábærlega síðustu daga, hitt boltann vel og hreyft mig vel. Ég veit ekki hvað gerðist.“

Monfiels tapaði sem fyrr segir gegn Holger Rune; 3-6, 6-3, 6-4, og mætir Daninn hinum breska Jack Draper í átta manna úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×