Stofnuð verða ný ráðuneyti Evrópumála, ráðuneyti samfélagsöryggis og neyðarvarna og ráðuneyti sem mun stýra innleiðingu loftlagsaðgerða. Þá verður Dan Jørgensen fulltrúi Danmerkur í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins en hann gegnir nú embætti ráðherra þróunarsamvinnu og hnattrænna loftslagsmála í dönsku ríkisstjórninni. Á morgun verður tilkynnt um hverjir taka við nýju ráðuneytunum og eftir atvikum frekari uppstokkun í ráðherraliði ríkisstjórnarinnar sem í sitja þegar tuttugu og þrír ráðherrar.
Ýmis atriði á eftir að útskýra nánar hvað varðar þessar boðuðu breytingar hjá ríkisstjórninni að því er fram kemur í umfjöllun DR um málið. Fyrir liggur þó að ríkisstjórnarflokkarnir munu á næsta ári greiða atkvæði með því að hækka eftirlaunaaldur í 70 ár á næsta ári, mál sem hefur verið þónokkuð umdeilt í dönsku samfélagi og var til umræðu á blaðamannafundinum fyrr í dag.
Undir lok blaðamannafundarins og eftir að hafa svarað spurningum fréttamanna þakkaði Mette Frederiksen forsætisráðherra áheyrnina og boðaði að frekari tíðinda væri að vænta á morgun um uppstokkunina í ríkisstjórninni. „Takk fyrir að hlusta, við erum farin inn að spila skák,“ sagði Frederiksen áður en þremenningarnir yfirgáfu fundarsalinn.