Sport

Róbert Ísak bætti Ís­lands­metið og varð sjö­tti

Valur Páll Eiríksson skrifar
Róbert Ísak synti fantavel síðdegis og bætti eigið Íslandsmet.
Róbert Ísak synti fantavel síðdegis og bætti eigið Íslandsmet. Getty

Róbert Ísak Jónsson varð sjötti í 100 metra flugsundi á Ólympíumóti fatlaðra í París síðdegis. Hann bætti eigið Íslandsmet í greininni og jafnaði árangurinn frá því í Tókýó.

Róbert Ísak var einn 15 keppenda í undanrásum í 100 metra flugsundi í S14 flokki þroskahamlaðra í lauginni í París í morgun. Hann var í seinni undanriðlinum og kom fimmti í bakkann á 58,35 sekúndum.

Það var áttundi besti tími morgunsins, tæpri sekúndu fljótari en Suður-Kóreumaðurinn Inkook Lee sem var níundi, og var Róbert þannig á meðal þeirra átta sem fóru í úrslit seinni partinn í dag.

Róbert sagði í samtali við RÚV eftir fyrra sundið að hann setti markið enn hærra í úrslitasundinu í dag og óhætt er að hann hafi staðið við stóru orðin.

Hann synti úrslitasundið fantavel og kom í bakkann á 57,92 sekúndum. Með því bætti hann eigið Íslandsmet sem 58,06 sekúndur. Hann var sjötti í bakkann, rétt eins og hann var í Tókýó árið 2021.

Alexander Hillhouse frá Danmörku fagnaði sigri en hann kom langfyrstur í bakkann á 54,61 sekúndu. William Ellard frá Bretlandi var annar og heimsmethafinn í greininni, Gabriel Bandeira frá Brasilíu, hlaut brons.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×