Ísland mætir Tyrklandi ytra í Þjóðadeild karla í knattspyrnu á morgun, mánudag. Leikurinn verður sýndur í opinni dagskrá Stöðvar 2 Sport.
Gylfi var í byrjunarliði Íslands sem lagði Svartfjallaland 2-0 í 1. umferð Þjóðadeildarinnar. Lagði hann upp síðara mark leiksins með góðri hornspyrnu sem rataði á kollinn á Jóni Degi Þorsteinssyni.
Gylfi Þór spilaði þó ekki allan leikinn á Laugardalsvelli og fór af velli í síðari hálfleik. Hann gekk strax til búningsherbergja en á blaðamannafundi í dag staðfesti Åge Hareide, þjálfari Íslands, að afmælisbarnið hefði verið að glíma við einhverskonar matareitrun í leiknum á föstudag.
Í kjölfarið var Jóhann Berg spurður hvort Gylfi Þór næði eitthvað að fagna afmælinu meðan hann væri í miðju landsliðsverkefni. Fyrirliðinn sagðist nú ekki reikna með því en ef til vill fengi afmælisbarnið kökusneið með kvöldmatnum í kvöld.
Blaðamannafund Íslands í heild sinni má sjá í spilaranum hér að neðan.
Leikur Tyrklands og Íslands hefst klukkan 18.45 annað kvöld og er í opinni dagskrá Stöðvar 2 Sport. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 18.15.