Óvíst er hversu margir fórust í umfangsmiklum árásum Ísrael í nótt. Minnst sjö hundruð hafa farist á síðustu tveimur vikum og meira en 200 þúsund þurft að flýja heimili sín. Talið er að 50 þúsund hafi flúið yfir landamærin til Sýrlands.
„Hans tign, Hassan Nasrallah, yfirmaður Hezbollah, sameinaðist hinum miklu píslavottum sínum sem hann leiddi ítrekað til sigurs í nær 30 ár.“

Svona hljóðaði yfirlýsing sem Hezbollah sendi frá sér rétt fyrir hádegi að íslenskum tíma. Í yfirlýsingunni hétu samtökin því að halda áfram því helga stríði, sem þau hefðu staðið í gegn Ísrael til stuðnings Gaza og palestínku þjóðinni.
Ísraelski herinn hafði tilkynnt það í morgun á samfélagsmiðlinum X að Nasrallah myndi ekki lengur halda heiminum í heljargreipum.
„Nasrallah var lífshættulegur þúsundum Ísraelsmanna og annarra borgara,“ sagði Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísrael, í yfirlýsingu í dag.
„Hezbollah dregur Líbanon og allan heimshlutann inn í stigvaxandi átök. Ísrael sækist ekki eftir stigvaxandi átökum,“ sagði Daniel Hagari, talsmaður Ísraelshers.

Ísraelar segjast nú hafa grandað öllum helstu toppum innan Hezbollah
Fullyrða má að með þessu aukist spennan á svæðinu en hún hefur farið stigvaxandi síðustu vikur. Írönsk yfirvöld, sem styðja Hezbollah og fleiri álíka samtök, fordæmdu aðgerðir Ísrael í dag. Hamas í Palestínu og Hútar í Jemen lýstu yfir stuðningi við Hezbollah í kjölfarið.
„Allir múslimar eru skyldugir að styðja líbönsku þjóðina og hina hugprúðu Hezbollah með ráðum og dáð og hjálpa þeim við að berjast gegn hinum rángjarna, harðráða og illa óvini,“ sagði í yfirlýsingu Ayatollah Khamenei, æðstaklerks Íran.