Erlent

Rutte tekur við af Stol­ten­berg

Atli Ísleifsson skrifar
Mark Rutte lét af embætti sem forsætisráðherra Hollands í sumar, en hann hafi gegnt þeirri stöðu síðan 2010.
Mark Rutte lét af embætti sem forsætisráðherra Hollands í sumar, en hann hafi gegnt þeirri stöðu síðan 2010. EPA

Hinn norski Jens Stoltenberg mun láta af embætti framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, NATO, í dag eftir tíu ár í embætti. Mark Rutte, fyrrverandi forsætisráðherra Hollands, tekur við stöðunni.

Röð viðburða eru á dagskrá í Brussel í dag til að marka tímamótin en Rutte verður sautjándi maðurinn til að gegna embættinu. Þeir Stoltenberg og Rutte munu takast í hendur og koma fyrir blómkransi við höfuðstöðvar bandalagsins í Brussel og svo funda með sendiherrum aðilarríkja. Að því loknu mun Rutte formlega taka við embættinu.

Stoltenberg tók við stöðunni árið 2014, sama ár og Rússar innlimuðu Krímskaga. Hann hefur þar með stýrt bandalaginu í tíu ár og hefur einungis hinn hollenski Joseph Luns leitt bandalagið lengur. Luns gegndi embætti framkvæmdastjóra NATO í tólf ár, frá 1971 til 1984.

Meðal þeirra verkefna sem verða á borði Rutte eru innrás Rússlands í Úkraínu, sem brátt hefur staðið í þúsund daga, og þá hafa mörg aðildarríki áhyggjur af stöðu bandalagsins fari svo að Donald Trump verði kjörinn forseti Bandaríkjanna á nýjan leik í forsetakosningunum vestanhafs í nóvember. 

Í forsetatíð sinni á árunum 2017 til 2021 þrýsti Trump mjög á önnur aðildarríki að leggja meira fjármagn til bandalagsins, auk þess að hann varpaði ákveðinni óvissu á gildi 5. greinar stofnsáttmálans þar sem lýst er yfir að árás á eitt bandalagsríki jafngildi árás á þau öll.

Rutte lét af embætti sem forsætisráðherra Hollands í sumar, en hann hafi gegnt þeirri stöðu síðan 2010.


Tengdar fréttir

Staðfesta skipun Ruttes

Framkvæmdastjórn Atlantshafsbandalagsins, NATO, hefur staðfest skipun Marks Rutte, forsætisráðherra Hollands, í stöðu framkvæmdastjóra NATO.

Rutte næsti framkvæmdastjóri NATO

Forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte, verður næsti framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, NATO. Það varð ljóst í dag þegar eini andstæður Rutte, Klaus Iohannis, forseti Rúmeníu, dró framboð sitt til framkvæmdastjóra NATO til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×