Viðskipti innlent

Taka flugið til Tyrk­lands

Atli Ísleifsson skrifar
Fyrsta flug Play til Antalya verður farið 15. apríl á næsta ári.
Fyrsta flug Play til Antalya verður farið 15. apríl á næsta ári. Vísir/Vilhelm

Flugfélagið Play hefur hafið sölu á áætlunarflugi til Antalya í Tyrklandi. Fyrsta flugið verður farið 15. apríl á næsta ári og verður flogið einu sinni í viku fram til byrjun júnímánaðar áður en áætlunin verður tekin upp að nýju í september og fram yfir miðjan nóvember.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Play. Þar segir að Antalya bjóði upp á heillandi blöndu af sögu, menningu og náttúru, sem geri borgina að einum af aðaláfangastöðunum við Miðjarðahafið. 

„Þar er hægt að ganga um götur Kaleici-hverfisins og virða fyrir sér byggingarstíl frá tímum Ottómana á sama tíma og hægt er að skoða spennandi verslanir og bregða sér á sjarmerandi kaffihús. Þeir sem sækja í afslöppun munu eiga góðar stundir á Konyaalti og Lara-ströndunum. Náttúruunnendur geta einnig virt fyrir sér Düden-fossana og hina fornu borg Termessos sem veitir mikilvæga innsýn í sögu Tyrklands.

Antalya er einnig frábær áfangastaður fyrir kylfinga en í hálftíma fjarlægð frá borginni er bærinn Belek sem er frægur fyrir golfvelli sína sem eru á heimsmælikvarða.

Í Antalya má einnig finna skemmtigarðinn The Land of Legends sem er einn af þeim stærstu og glæsilegustu í Tyrklandi. Þar má finna vatnsrennibrautir, rússíbana, sýningar, verslanir og veitingastaði,“ segir í tilkynningunni. 

Haft er eftir Einari Erni Ólafssyni, forstjóra Play að Antalya sé einstaklega áhugaverður áfangastaður sem muni vafalaust laða að marga Íslendinga á næsta ári. „Borgin mun heilla jafnt þá sem hafa áhuga á sögu og menningu Tyrklands sem og þá sem vilja magnaða sólarlandaupplifun. Við höfum það að markmiði að bjóða eina flottustu sólarlandaáætlun sem völ er á og styrkjum hana enn frekar með þessum frábæra áfangastað,” segir Einar Örn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×