Skoðun

Mis­rétti, von­leysi og bar­áttan við að halda í bjart­sýnina

Ari Orrason skrifar

Grein þessi er fyrst og fremst ætluð ungu fólki

Við stöndum frami fyrir tímamótum í íslenskum stjórnmálum. Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera að yfirgefa ríkisstjórn eftir langa veru, Vinstri Græn horfa upp á það að þurrkast algerlega út næsta kjörtímabil og þjóðernis-popúlistaflokkur, Miðflokkurinn, er á uppleið í fyrsta skiptið síðan ég man eftir mér, sem eru þó ekki nema svona 22-23 ár.

Þetta kemur í kjölfari talsverðs usla seinustu ára. Stórir atburðir á heimssviðinu eins og heimsfaraldur, það sem virðist ætla að verða eilíf innrás í Úkraínu og yfirstandandi þjóðarmorð í Palestínu hafa markað tilveruna seinustu 4 árin. Samhliða þessu er ríkiskerfið að bregðast okkur þegar ríkiseignir eru seldar frá okkur og hagræðing og millistjórnendablæti hafa sogað fé út úr því. Ofan á bætast svo samfélagsmiðlar sem eru hannaðir með þeim tilgangi að gera okkur pirruð og þunglynd. Það er því engin furða að mikil gremja hefur ólgað undir yfirborðinu.

Ég vil einblína á ungt fólk í þessu samhengi, ég hef nefnilega ágæta innsýn í þeirra heim verandi eitt af þessu unga fólki.

Við bregðumst við ástandinu með því að bregðast okkur sjálfum

Hvernig birtist þessi gremja hjá ungu fólki? Ég hef skoðað þetta aðeins og sé að okkar vonleysi leysist helst út á tvo neikvæða máta. Fyrst er það gegnum ofbeldi. Við höfum séð það undanfarin misseri að ofbeldi meðal ungmenna er að verða enn meiri vandamál en það var. Þessi þróun er orðin svo slæm að nú nýlega var 17 ára stelpa drepin, vinir hennar alvarlega særðir og 16 ára strákur er nú morðingi. Veltið þessum orðum fyrir ykkur. 17 ára fórnalamb morðs og 16 ára morðingi. Þetta geta ekki verið ummerki heilbrigðs samfélags. Unglinar eru ekki að ráðast á hvort annað með þeim hætti að einhver deyr þegar samfélagi gengur vel og upplifir velsæld.

Önnur birtingamynd er framkoma á samfélagsmiðlum. Hvernig við tölum og berum okkur á netinu getur verið ótrúlega ljótt. Hvort sem það er með skítkasti, niðurrifi eða beinlínis hvatningum til sjálfsvígs á þau sem við sjáum sem andstæðinga okkar. Ég hef einstaklega góða innsýn í þessa birtingarmynd gremju því ég sjálfur er sekur um að hafa tekið þátt í þessu þegar ég var yngri, það er mjög auðvelt að réttlæta fyrir sjálfum sér að vera dónalegur og andstyggilegur við einhvern sem maður sér bara sem andlitslausan nasista á netinu. En þetta er samt ekki í lagi. Það er ekkert eðlilegt við það hvernig sumir leyfa sér að tala um aðra á netinu, hvernig við leyfum okkur að niðurlægja og lítillækka aðra bakvið skjöld skjásins. Þetta er þreytt tugga en þú myndir aldrei segja svona hluti auglit til auglits. Þessi framkoma helst í hendur við ofbeldið. Bæði eru ljótar birtingamyndir af reiði og vonleysi sem hefur byrjað að brjótast gegnum sprungur á yfiborðinu.

Uppreisn róttækrar bjartsýni

Það er erfitt að halda í vonina þegar mótbyrinn er svona mikill. Vandamálin okkar verða ekki leyst með einstaklingsgjörðum því þau eru miklu stærri en það. Engu að síður getum við tekið þá ákvörðun að gefast ekki upp, að leyfa okkur ekki að detta í grafir vonleysisins og að koma fram við aðra af virðingu og væntumþykju fyrir náunganum.

Við þurfum að tileinka okkur bjartsýni sem róttæka gjörð uppreisnar. Við þurfum að vona og trúa á að betri valkostur sé í boði fyrir okkur.

Til þess vil ég gefa ungu fólki nokkur ráð sem gætu hjálpað til við að halda í bjartsýnina.

·Hafðu væntumþykju og virðingu að leiðarljósi.

·Finndu út hvað skiptir þig máli og reyndu að sjá hvort þú getir á einhvern hátt hjálpað til við þau mál. Ég mæli persónulega með að taka þátt í félaga- eða flokkastarfi ef þú hefur aldur til, það er mjög gefandi að koma saman með fleiri einstaklingum með sameiginleg markmið. Gerir mikið fyrir bjartsýnina.

·Hafðu lítil persónuleg markmið utan stóru málanna sem þú getur klárað og verið stolt/ur af.

·Passaðu upp á að sinna áhugamálunum þínum.

·Talaðu við fólk í raunheimum.

Þessi ráð munu ekki leysa öll vandamál, en með þeim er hægt að beisla róttæka bjartsýni sem verkfæri til framfara.

Verum góð hvort við annað og höldum í vonina.

Höfundur skipar 2. sæti lista Sósíalistaflokks Íslands í Norðausturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×