Innlent

Á­kærður fyrir hnefa­högg á Lúx sem leiddi til dauða

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Líkamsárásin átti sér stað á skemmtistaðnum Lúx.
Líkamsárásin átti sér stað á skemmtistaðnum Lúx. Vísir/Vilhelm

Íslendingur á þrítugsaldri hefur verið ákærður fyrir stórfellda líkamsárás sem leiddi til dauða litáísks karlmanns í skemmtistaðnum Lúx í Austurstræti í Reykjavík í júní í fyrra.

RÚV greinir frá ákærunni. Manninum er gefið að sök að hafa slegið karlmanninn fyrirvaralaust á skemmtistaðnum. Sá var meðvitundarlaus þegar lögregla kom á vettvang og árásarmaðurinn farinn af vettvangi. Hann var handtekinn í nágrenninu.

Skemmtistaðurinn sem um ræðir hét LÚX, en honum hefur verið lokað og annar skemmtistaður opnað á sama stað. Sjónarvottar að árásinni sögðu að maðurinn sem lést hefði einungis hlotið eitt hnefahögg.

Hinn látni var frá Litáen og hafði búið hér á landi um nokkurra mánaða skeið. Kærasta hans hefði flutt til landsins tveimur vikum fyrir andlátið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×