Innlent

Samningur undir­ritaður um augn­lækningar á Austur­landi

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Sigurður Helgi Helgason, forstjóri Sjúkratrygginga; Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands, við undirritun samningsins í heilbrigðisráðuneytinu í gær.
Sigurður Helgi Helgason, forstjóri Sjúkratrygginga; Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands, við undirritun samningsins í heilbrigðisráðuneytinu í gær.

Sjúkratryggingar Íslands, heilbrigðisráðuneytið og Heilbrigðisstofnun Austurlands undirrituðu í gær samning um augnlækningar á Austurlandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins. Fyrirkomulag þjónustunnar verði þannig að augnlæknar verða með móttöku á Egilsstöðum fimm til sjö sinnum á ári, fimm daga í senn. 

Þess utan veiti augnlæknar fjarheilbrigðisþjónustu gegnum fjarbúnað og verður Heilbrigðisstofnunin með sérþjálfaðan starfsmann sem sinnir þjónustu við sjúklinga í tengslum við notkun búnaðarins á staðnum.

Augnlæknar hafa ekki verið með þjónustu á Austurlandi um nokkurt skeið og því miklar vonir bundnar við þjónustuna. Þá kemur fram að augnlæknarnir sem hafa tekið að sér að sinna þjónustunni séu með reynslu af samskonar þjónustu erlendis.

Þurfi ekki lengur að fara um langan veg fyrir þjónustu

„Hér sjáum við íslenska heilbrigðisstefnu í framkvæmd, þar sem markvisst er unnið að því að jafna aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og nýta til þess samninga og jafnframt tæknilausnir á sviði fjarheilbrigðisþjónustu,“ sagði Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra um samninginn sem hann sagði jafnframt geta orðið „fyrirmynd sérgreinaþjónustu um allt land“.

Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands sagði fólk á stofnuninni hafi fundið fyrir því að þjónustu augnlækna hafi vantað á svæðið. Margir hafi þurft að fara um langan veg til þess að fá sækja þjónustu augnlækna og margir hreinlega ekki fengið neina þjónustu af því tagi.

„Þetta er stór og mikilvægur áfangi í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og tryggir íbúum á Austurlandi aðgang að augnlækningum í þeirra heimabyggð. Sjúkratryggingar hafa á undanförnum árum gert samninga til að efla þjónustu á landsbyggðinni og við vonumst til þess að geta fjölgað þeim enn frekar,“ sagði Sigurður Helgi Helgason, forstjóri Sjúkratrygginga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×