Hvers vegna hefur frammistöðu íslenskra nemenda í PISA farið hrakandi? Jón Páll Haraldsson, Linda Heiðarsdóttir og Ómar Örn Magnússon skrifa 21. nóvember 2024 09:32 Hér er önnur grein af þremur um íslensk ungmenni, skólana þeirra og alþjóðlegan samanburð. Fyrsta greinin fjallaði um styrkleika íslensku grunnskólanna. Þessi grein fjallar um PISA og mögulegar skýringar á versnandi frammistöðu Íslands. Í þriðju grein verður fjallað um möguleg áhrif aukins einkareksturs og skólavals á námsárangur og samfélag. Á þriggja ára fresti leggur OECD svonefndar PISA-kannanir fyrir úrtak nemenda/skóla í fjölmörgum löndum heimsins. Samhliða fyrirlögninni er ýmsum öðrum upplýsingum safnað um skólakerfi þátttökulandanna. PISA-kannanirnar virðast almennt séð vera vönduð próf sem mæla mjög eftirsóknarverða hæfni, þó jafnan megi benda á ýmis álitamál við allar mælingar. Í PISA-skýrslum íslenskra menntayfirvalda má yfirleitt sjá nokkur sýnidæmi úr prófunum. Þau sem skoða sýnidæmin sjá að öll PISA-verkefni byggja á talsverðu lesmáli sem krefst bæði yfirlegu og orðaforða. Prófin reyna þannig mikið á skilning á móðurmáli. Í sumum verkefnum reynir einnig á hæfni í stærðfræði og náttúrufræði við lausnaleit en það eru samt einnig verkefni sem krefjast mikillar textagreiningar. Í náttúrufræði- og stærðfræðiverkefnum er þannig ekki verið að spyrja um sundurlausar staðreyndir eða tæknilega úrvinnslu eingöngu. Til að skora hátt í PISA-verkefnum þurfa nemendur þannig ávallt að kryfja texta og gjarnan myndefni, sýna umtalsverða hæfni til lausnaleitar, geta dregið ályktanir af lausnum sínum og stundum rökstutt þær ályktanir með eigin texta. Þetta eru því vönduð og krefjandi próf sem mæla eftirsóknarverða hæfni – og móðurmálið er ávallt lykillinn að árangri. Um þau sem skora ekki hátt í þessum verkefnum eða leggja sig ekki fram er sagt að þau geti ekki lesið sér til gagns, eins og kunnugt er. Frammistaða íslenskra ungmenna í fyrstu PISA-könnununum þótti viðunandi í alþjóðlegum samanburði en við vildum samt gera betur. Eins og fram hefur komið hefur frammistaðan hins vegar versnað jafnt og þétt frá árinu 2008. Sú þróun er öllum vonbrigði, því þó markmið skólastarfs séu fjölbreytt þá viljum við svo sannarlega að nemendur búi yfir þeirri hæfni sem lýst er hér að ofan. Síversnandi niðurstöður hafa einnig neikvæð áhrif á sjálfsmynd bæði nemenda, foreldra, skólafólks og menntayfirvalda. Hér er því ærin ástæða til að greina stöðuna og leita haldbærra skýringa. Í framhaldinu er mikilvægt að vanda alla ákvarðanatöku og gera umbætur með hliðsjón af menntarannsóknum. Margir þættir hafa áhrif á gæði menntunar, skólastarfs og á námsárangur. Mælingar, niðurstöður og ályktanir í skólamálum eru því margslungið fyrirbæri og þannig er afar flókið að fullyrða um orsakasamhengi í menntamálum ef ætlunin er að tala af ábyrgð. Að sama skapi getur umræða um skólastarf og árangur því verið tilvalinn vettvangur ofureinföldunar, tækifærismennsku og skyndilausna. Einfaldar og einhlítar skýringar á versnandi frammistöðu íslenskra ungmenna í PISA-prófunum eru því ekki fyrir hendi en þeirra þarf þó að leita og ræða. Hér að neðan eru þær veigamestu, að okkar mati: Niðurskurður á fjármagni til skóla eftir banka- og efnahagshrunið árið 2008. Þeir nemendur sem tóku PISA-könnunina árið 2022 byrjuðu líklega flestir í leikskóla árið 2008. Fyrstu árin eftir hrun varð umtalsverður niðurskurður á fjármagni til grunnskóla og leikskóla. Athugun Odds Jakobssonar á tölum Hagstofunnar bendir til að niðurskurður á staðvirtu fjármagni á hvern nemanda í grunnskóla hafi t.d. verið um 15% milli áranna 2008 og 2012. Við sem störfuðum í skólunum á þessum tíma munum vel eftir þessu höggi. Það bitnaði líklega helst á þeim nemendum sem þurftu stuðning við nám og daglega tilveru, því að í skólastarfi með föstum kennslustundafjölda er fátt til að skera niður annað en stoðkennsla og stjórnun og svo er hægt að stækka bekki. Öllum þessum niðurskurðaraðferðum hefur verið beitt eftir hrun. Samdráttur í fjárveitingum er enn fremur möguleg skýring á því að bakgrunnur foreldra var árið 2022 talinn hafa meiri áhrif á PISA-frammistöðu íslenskra ungmenna en áður var. Margt er hins vegar óljóst með skólakerfið og fjármagn. Kerfið er sagt dýrt en menntayfirvöld mættu gera miklu meira til að skýra og sundurliða samanburð á kostnaði milli landa. Er það smæð samfélagsins, dreifing byggðar, húsnæðiskostnaður, launakostnaður eða eitthvað allt annað sem skýrir helst mun á milli landa? Innan skólanna finnum við hins vegar ávallt að samdráttur á fjármagni kallar á verri þjónustu. Umtalsverð og samfelld fækkun menntaðra kennara í leik- og grunnskólum síðasta áratug. Allra fyrstu árin eftir hrun var reyndar óvenju auðvelt að fá kennara til starfa í skólum því atvinnuleysi var útbreitt. Síðasta áratuginn hafa ráðningar fagmenntaðra kennara gengið sífellt verr og líklega sjaldan eins illa og einmitt nú í haust. Í grunnskólanum lækkaði hlutfall fagmenntaðra kennara úr 96% í 81% milli áranna 2013 og 2023 Ný aðalnámskrá grunnskóla og þá einkum innleiðing hennar. Námskráin var gefin út á árunum 2011 og 2013. Hugmyndafræðin á bak við námskrána fannst okkur spennandi á sínum tíma þótt margar og flóknar nýjungar væru boðaðar, t.d. hvað varðar námsmat. Þegar á reyndi bólaði lítið á innleiðingu nýrra hugmynda. Skólasamfélagið benti ítrekað á að margt væri óljóst og óunnið, sjá einnig hér og hér. Hér skorti leiðsögn og gagnsæi; námskráin sem átti að vera leiðarrit varð kennurum og stjórnendum ráðgáta. Farsælum kennurum fannst fótunum kippt undan sér, nemendur og foreldrar fundu sömuleiðis til óöryggis. Innleiðing námskrárinnar fékk síðar falleinkunn í formlegri úttekt. Hér er hins vegar ekki kallað eftir nýrri kúvendingu því talsverð vinna hefur farið í mat og greiningu. Bætum því frekar og skýrum það sem óljóst er. Minni lestur ungmenna á íslenskum texta. Bæði Skólapúlsinn og Rannsóknir og greining hafa séð í mælingum sínum að áhugi ungmenna á lestri hefur dregist saman á síðasta áratug. Minni lestur getur haft mikil áhrif á orðaforða og málskilning og þannig haft áhrif á frammistöðu í læsisprófum eins og PISA. Með þessu viljum við síst afneita þeim námstækifærum sem felast í öðrum miðlum en bókum og texta. En þrátt fyrir alla tæknivæðingu er hins vegar fátt sem bendir til þess að mikilvægi textalesturs sé á undanhaldi eða að texti verði minna þarfur í tæknivæddu samfélagi framtíðar. Minni lestur er síðan beintengdur næsta orsakaþætti. Versnandi tök ungmenna á íslenskri tungu. Að okkar mati er þetta mögulega einn stærsti áhrifaþátturinn þegar kemur að hnignandi frammistöðu íslenskra ungmenna í PISA-prófunum. Fyrir þau sem hafa skoðað dæmi um PISA-verkefni gefur það auga leið að án færni í móðurmáli skora nemendur ekki hátt. Þegar kemur að hæfninni til að lesa, skilja og beita íslenskri tungu eru íslensk ungmenni líklega hvorki móður- né föðurbetrungar. Að okkar mati er þessi breyting að gerast nokkuð hratt, með vaxandi aðgengi og notkun á stafrænu ensku efni til afþreyingar og menntunar. Við í skólanum finnum að tungutak nemenda hefur breyst og stundum þurfum við jafnvel að grípa til enskunnar til að útskýra íslensk orð. Í hröðum stafrænum breytingum er hætt við að afar fámenn málsvæði eigi meira undir högg að sækja en önnur, og Ísland er eitt allra minnsta málsvæði sem tekur þátt í PISA. Íslensk ungmenni munu ekki skora hátt í PISA nema að okkur takist að halda íslenskunni þétt að þeim frá unga aldri og snúa þessari þróun við. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að unglingarnir okkar eru ótrúlega góð og sjálfsörugg þegar kemur að ensku, einkum þegar kemur að því að tala og skilja. Það væri freistandi að segja að krakkarnir væru tvítyngd – sem væri mjög jákvætt – en líklega eru þau frekar einhvers staðar á milli mála sem er ekki eins traustvekjandi þegar kemur að læsisprófum. Enskukunnáttan og önnur almenn hæfni eiga hins vegar eftir að gagnast þeim mjög vel síðar meir, bæði í námi, starfi og í lífinu sjálfu. Ofangreind upptalning er að mestu byggð á mati og reynslu höfunda og hún er sett fram með sterkum fyrirvara um áhrifaþætti og orsakasamhengi. Í þessari framsetningu felst heldur engin tilraun til að afneita öðrum orsakaþáttum - og það kann t.d. vel að vera að vönduð samræmd próf eða vandaðir matsferlar geti bætt umgjörð skólastarfs og námsárangur. 30. nóvember næstkomandi verða kosningar til Alþingis. Að minnsta kosti einn flokkur hefur það á stefnuskrá sinni að auka skólaval og veg einkaskóla á grunnskólastigi. Í þriðju og síðustu grein okkar að sinni verða þær hugmyndir skoðaðar með hliðsjón af rannsóknum OECD og fleiri aðila. Með skólakveðju, Jón Páll Haraldsson, Linda Heiðarsdóttir og Ómar Örn Magnússon. Höfundar eru kennarar og skólastjórnendur til áratuga og einlægt áhugafólk um faglega þróun grunnskólastarfs. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Páll Haraldsson Linda Heiðarsdóttir Ómar Örn Magnússon Skóla- og menntamál Grunnskólar PISA-könnun Börn og uppeldi Tengdar fréttir Styrkleiki íslensku grunnskólanna Það hefur gustað eilítið um grunnskólann síðustu mánuði. Gagnrýnisraddir hafa þó flestar blásið úr sömu áttinni sem hefur skapað frekar einsleita mynd af íslenskum ungmennum, af námslegri getu þeirra og af gæðum grunnskólastarfs. 20. nóvember 2024 09:32 Mest lesið Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Athugasemdir við eignaumsýslu Landsbanka Íslands Þorsteinn Sæmundsson Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Skúffuskýrslan sem lifði af Linda Heiðarsdóttir Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Stuðlar: neyðarástand í meðferðarkerfinu Böðvar Björnsson Skoðun Framúrskarandi þjónusta byggir upp traust á fyrirtækjum Ingibjörg Valdimarsdóttir Skoðun Skoðun Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir skrifar Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir skrifar Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson skrifar Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson skrifar Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson skrifar Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson skrifar Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson skrifar Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson skrifar Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð skrifar Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt skrifar Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir skrifar Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson skrifar Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir skrifar Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson skrifar Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir skrifar Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir skrifar Skoðun Dans verkalýðsleiðtoga í kringum gullkálfinn Ole Anton Bieltvedt skrifar Skoðun Jól í sól versus jóla í dimmu Matthildur Björnsdóttir skrifar Skoðun Mikilvægi samgöngusáttmála fyrir Vestfirði Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir,Unnar Hermannsson,Halldór Halldórsson skrifar Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson skrifar Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson skrifar Skoðun Er janúar leiðinlegasti mánuður ársins? Dagbjört Harðardóttir skrifar Skoðun Svar við hótunum Eflingar Sigurður G. Guðjónsson skrifar Skoðun Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson skrifar Skoðun Manni verður kalt ef maður pissar í skóinn sinn Guðríður Eldey Arnardóttir skrifar Skoðun Skautun eða tvíhyggja? Þóra Pétursdóttir skrifar Skoðun Egóið er í hégómanum Skúli S. Ólafsson skrifar Skoðun Dæmalaus málflutningur Hjörtur J. Guðmundsson skrifar Skoðun Grýtt eða greið leið? Þröstur Sæmundsson skrifar Skoðun Tímalína hörmulegra limlestinga og kvalafulls dauðastríðs háþróaðrar lífveru Ole Anton Bieltvedt skrifar Sjá meira
Hér er önnur grein af þremur um íslensk ungmenni, skólana þeirra og alþjóðlegan samanburð. Fyrsta greinin fjallaði um styrkleika íslensku grunnskólanna. Þessi grein fjallar um PISA og mögulegar skýringar á versnandi frammistöðu Íslands. Í þriðju grein verður fjallað um möguleg áhrif aukins einkareksturs og skólavals á námsárangur og samfélag. Á þriggja ára fresti leggur OECD svonefndar PISA-kannanir fyrir úrtak nemenda/skóla í fjölmörgum löndum heimsins. Samhliða fyrirlögninni er ýmsum öðrum upplýsingum safnað um skólakerfi þátttökulandanna. PISA-kannanirnar virðast almennt séð vera vönduð próf sem mæla mjög eftirsóknarverða hæfni, þó jafnan megi benda á ýmis álitamál við allar mælingar. Í PISA-skýrslum íslenskra menntayfirvalda má yfirleitt sjá nokkur sýnidæmi úr prófunum. Þau sem skoða sýnidæmin sjá að öll PISA-verkefni byggja á talsverðu lesmáli sem krefst bæði yfirlegu og orðaforða. Prófin reyna þannig mikið á skilning á móðurmáli. Í sumum verkefnum reynir einnig á hæfni í stærðfræði og náttúrufræði við lausnaleit en það eru samt einnig verkefni sem krefjast mikillar textagreiningar. Í náttúrufræði- og stærðfræðiverkefnum er þannig ekki verið að spyrja um sundurlausar staðreyndir eða tæknilega úrvinnslu eingöngu. Til að skora hátt í PISA-verkefnum þurfa nemendur þannig ávallt að kryfja texta og gjarnan myndefni, sýna umtalsverða hæfni til lausnaleitar, geta dregið ályktanir af lausnum sínum og stundum rökstutt þær ályktanir með eigin texta. Þetta eru því vönduð og krefjandi próf sem mæla eftirsóknarverða hæfni – og móðurmálið er ávallt lykillinn að árangri. Um þau sem skora ekki hátt í þessum verkefnum eða leggja sig ekki fram er sagt að þau geti ekki lesið sér til gagns, eins og kunnugt er. Frammistaða íslenskra ungmenna í fyrstu PISA-könnununum þótti viðunandi í alþjóðlegum samanburði en við vildum samt gera betur. Eins og fram hefur komið hefur frammistaðan hins vegar versnað jafnt og þétt frá árinu 2008. Sú þróun er öllum vonbrigði, því þó markmið skólastarfs séu fjölbreytt þá viljum við svo sannarlega að nemendur búi yfir þeirri hæfni sem lýst er hér að ofan. Síversnandi niðurstöður hafa einnig neikvæð áhrif á sjálfsmynd bæði nemenda, foreldra, skólafólks og menntayfirvalda. Hér er því ærin ástæða til að greina stöðuna og leita haldbærra skýringa. Í framhaldinu er mikilvægt að vanda alla ákvarðanatöku og gera umbætur með hliðsjón af menntarannsóknum. Margir þættir hafa áhrif á gæði menntunar, skólastarfs og á námsárangur. Mælingar, niðurstöður og ályktanir í skólamálum eru því margslungið fyrirbæri og þannig er afar flókið að fullyrða um orsakasamhengi í menntamálum ef ætlunin er að tala af ábyrgð. Að sama skapi getur umræða um skólastarf og árangur því verið tilvalinn vettvangur ofureinföldunar, tækifærismennsku og skyndilausna. Einfaldar og einhlítar skýringar á versnandi frammistöðu íslenskra ungmenna í PISA-prófunum eru því ekki fyrir hendi en þeirra þarf þó að leita og ræða. Hér að neðan eru þær veigamestu, að okkar mati: Niðurskurður á fjármagni til skóla eftir banka- og efnahagshrunið árið 2008. Þeir nemendur sem tóku PISA-könnunina árið 2022 byrjuðu líklega flestir í leikskóla árið 2008. Fyrstu árin eftir hrun varð umtalsverður niðurskurður á fjármagni til grunnskóla og leikskóla. Athugun Odds Jakobssonar á tölum Hagstofunnar bendir til að niðurskurður á staðvirtu fjármagni á hvern nemanda í grunnskóla hafi t.d. verið um 15% milli áranna 2008 og 2012. Við sem störfuðum í skólunum á þessum tíma munum vel eftir þessu höggi. Það bitnaði líklega helst á þeim nemendum sem þurftu stuðning við nám og daglega tilveru, því að í skólastarfi með föstum kennslustundafjölda er fátt til að skera niður annað en stoðkennsla og stjórnun og svo er hægt að stækka bekki. Öllum þessum niðurskurðaraðferðum hefur verið beitt eftir hrun. Samdráttur í fjárveitingum er enn fremur möguleg skýring á því að bakgrunnur foreldra var árið 2022 talinn hafa meiri áhrif á PISA-frammistöðu íslenskra ungmenna en áður var. Margt er hins vegar óljóst með skólakerfið og fjármagn. Kerfið er sagt dýrt en menntayfirvöld mættu gera miklu meira til að skýra og sundurliða samanburð á kostnaði milli landa. Er það smæð samfélagsins, dreifing byggðar, húsnæðiskostnaður, launakostnaður eða eitthvað allt annað sem skýrir helst mun á milli landa? Innan skólanna finnum við hins vegar ávallt að samdráttur á fjármagni kallar á verri þjónustu. Umtalsverð og samfelld fækkun menntaðra kennara í leik- og grunnskólum síðasta áratug. Allra fyrstu árin eftir hrun var reyndar óvenju auðvelt að fá kennara til starfa í skólum því atvinnuleysi var útbreitt. Síðasta áratuginn hafa ráðningar fagmenntaðra kennara gengið sífellt verr og líklega sjaldan eins illa og einmitt nú í haust. Í grunnskólanum lækkaði hlutfall fagmenntaðra kennara úr 96% í 81% milli áranna 2013 og 2023 Ný aðalnámskrá grunnskóla og þá einkum innleiðing hennar. Námskráin var gefin út á árunum 2011 og 2013. Hugmyndafræðin á bak við námskrána fannst okkur spennandi á sínum tíma þótt margar og flóknar nýjungar væru boðaðar, t.d. hvað varðar námsmat. Þegar á reyndi bólaði lítið á innleiðingu nýrra hugmynda. Skólasamfélagið benti ítrekað á að margt væri óljóst og óunnið, sjá einnig hér og hér. Hér skorti leiðsögn og gagnsæi; námskráin sem átti að vera leiðarrit varð kennurum og stjórnendum ráðgáta. Farsælum kennurum fannst fótunum kippt undan sér, nemendur og foreldrar fundu sömuleiðis til óöryggis. Innleiðing námskrárinnar fékk síðar falleinkunn í formlegri úttekt. Hér er hins vegar ekki kallað eftir nýrri kúvendingu því talsverð vinna hefur farið í mat og greiningu. Bætum því frekar og skýrum það sem óljóst er. Minni lestur ungmenna á íslenskum texta. Bæði Skólapúlsinn og Rannsóknir og greining hafa séð í mælingum sínum að áhugi ungmenna á lestri hefur dregist saman á síðasta áratug. Minni lestur getur haft mikil áhrif á orðaforða og málskilning og þannig haft áhrif á frammistöðu í læsisprófum eins og PISA. Með þessu viljum við síst afneita þeim námstækifærum sem felast í öðrum miðlum en bókum og texta. En þrátt fyrir alla tæknivæðingu er hins vegar fátt sem bendir til þess að mikilvægi textalesturs sé á undanhaldi eða að texti verði minna þarfur í tæknivæddu samfélagi framtíðar. Minni lestur er síðan beintengdur næsta orsakaþætti. Versnandi tök ungmenna á íslenskri tungu. Að okkar mati er þetta mögulega einn stærsti áhrifaþátturinn þegar kemur að hnignandi frammistöðu íslenskra ungmenna í PISA-prófunum. Fyrir þau sem hafa skoðað dæmi um PISA-verkefni gefur það auga leið að án færni í móðurmáli skora nemendur ekki hátt. Þegar kemur að hæfninni til að lesa, skilja og beita íslenskri tungu eru íslensk ungmenni líklega hvorki móður- né föðurbetrungar. Að okkar mati er þessi breyting að gerast nokkuð hratt, með vaxandi aðgengi og notkun á stafrænu ensku efni til afþreyingar og menntunar. Við í skólanum finnum að tungutak nemenda hefur breyst og stundum þurfum við jafnvel að grípa til enskunnar til að útskýra íslensk orð. Í hröðum stafrænum breytingum er hætt við að afar fámenn málsvæði eigi meira undir högg að sækja en önnur, og Ísland er eitt allra minnsta málsvæði sem tekur þátt í PISA. Íslensk ungmenni munu ekki skora hátt í PISA nema að okkur takist að halda íslenskunni þétt að þeim frá unga aldri og snúa þessari þróun við. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að unglingarnir okkar eru ótrúlega góð og sjálfsörugg þegar kemur að ensku, einkum þegar kemur að því að tala og skilja. Það væri freistandi að segja að krakkarnir væru tvítyngd – sem væri mjög jákvætt – en líklega eru þau frekar einhvers staðar á milli mála sem er ekki eins traustvekjandi þegar kemur að læsisprófum. Enskukunnáttan og önnur almenn hæfni eiga hins vegar eftir að gagnast þeim mjög vel síðar meir, bæði í námi, starfi og í lífinu sjálfu. Ofangreind upptalning er að mestu byggð á mati og reynslu höfunda og hún er sett fram með sterkum fyrirvara um áhrifaþætti og orsakasamhengi. Í þessari framsetningu felst heldur engin tilraun til að afneita öðrum orsakaþáttum - og það kann t.d. vel að vera að vönduð samræmd próf eða vandaðir matsferlar geti bætt umgjörð skólastarfs og námsárangur. 30. nóvember næstkomandi verða kosningar til Alþingis. Að minnsta kosti einn flokkur hefur það á stefnuskrá sinni að auka skólaval og veg einkaskóla á grunnskólastigi. Í þriðju og síðustu grein okkar að sinni verða þær hugmyndir skoðaðar með hliðsjón af rannsóknum OECD og fleiri aðila. Með skólakveðju, Jón Páll Haraldsson, Linda Heiðarsdóttir og Ómar Örn Magnússon. Höfundar eru kennarar og skólastjórnendur til áratuga og einlægt áhugafólk um faglega þróun grunnskólastarfs.
Styrkleiki íslensku grunnskólanna Það hefur gustað eilítið um grunnskólann síðustu mánuði. Gagnrýnisraddir hafa þó flestar blásið úr sömu áttinni sem hefur skapað frekar einsleita mynd af íslenskum ungmennum, af námslegri getu þeirra og af gæðum grunnskólastarfs. 20. nóvember 2024 09:32
Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir skrifar
Skoðun Mikilvægi samgöngusáttmála fyrir Vestfirði Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir,Unnar Hermannsson,Halldór Halldórsson skrifar
Skoðun Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson skrifar
Skoðun Tímalína hörmulegra limlestinga og kvalafulls dauðastríðs háþróaðrar lífveru Ole Anton Bieltvedt skrifar