Í tilkynningu þess efnis á vef Hagstofunnar segir að í heild sé áætlað að tekjur hins opinbera hafi aukist um 5,2 prósent samanborið við þriðja ársfjórðung 2023. Tekjur af sköttum og tryggingagjaldi hafi aukist um 7,4 prósent en eignatekjur dregist saman um 7,0 prósent.
Tilfærslukerfið þungur baggi
Áætlað sé að heildarútgjöld hafi aukist um 11,8 prósent á þriðja ársfjórðungi 2024 miðað við sama tímabil fyrra árs. Hér vegi þungt 17,8 prósent aukning í útgjöldum vegna félagslegra tilfærsla til heimila.
Einnig hafi útgjöld vegna þeirra úrræða sem ríkissjóður hefur gripið til vegna jarðhræringa og eldgosa við Grindavík haft töluverð áhrif á afkomu hins opinbera.
Lánasjóðir hafa töluverð áhrif
Vert sé að hafa í huga að afmörkun hins opinbera í þjóðhagsreikningum og í talnaefni um fjármál hins opinbera miðast við evrópska þjóðhagsreikningastaðalinn, ESA2010. Með hinu opinbera teljist meðal annars lánasjóðir ríkissjóðs, sem hafi veruleg áhrif á vaxtatekjur og -gjöld þess. Í greinargerð sem gefin hafi verið út 30. nóvember 2020 og sé aðgengileg á vef Hagstofunnar sé fjallað sérstaklega um aðferðafræðilegan grundvöll geiraflokkunar og úrlausn álitamála sem snúa að flokkun fyrirtækja og stofnana í eigu ríkisins.
Afkoma hins opinbera sé áætluð út frá bráðabirgðatölum. Niðurstöður muni taka breytingum þegar uppgjör liggur fyrir.