Þetta er í fyrsta sinn sem lið frá fjölmennustu borgum Bandaríkjanna mætast í úrslitum MLS.
Leikurinn, sem fór fram á heimavelli, LA Galaxy, byrjaði mjög fjörlega en öll þrjú mörkin komu á fyrstu 28 mínútunum.
Joseph Paintsil kom heimamönnum yfir á 9. mínútu og fjórum mínútum síðar tvöfaldaði Dejan Joveljic forskotið.
Sean Nealis, varnarmaður New York, var nálægt því að skora sjálfsmark skömmu síðar en skoraði svo í rétt mark á 28. mínútu og minnkaði muninn í 2-1.
Bæði lið fengu sín færi til að bæta við mörkum það sem eftir lifði leiks en þau urðu ekki fleiri og LA Galaxy fagnaði sigri, 2-1.
Þetta er í sjötta sinn sem LA Galaxy verður MLS-meistari. Liðið er það sigursælasta í 29 ára sögu deildarinnar.