Fótbolti

Orðaður við ís­lenska lands­liðið en þykir lík­legur til að taka við Molde

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Per-Mathias Høgmo hefur komið víða við á ferlinum.
Per-Mathias Høgmo hefur komið víða við á ferlinum. getty/Hiroki Watanabe

Per-Mathias Høgmo er orðaður við Molde í norskum fjölmiðlum. Hann er einn þeirra sem hafa verið nefndir sem næsti landsliðsþjálfari Íslands.

Molde rak Erling Moe eftir síðasta tímabil og er í þjálfaraleit. Høgmo hefur verið nefndur í því samhengi og samkvæmt Nettavisen er búið að bjóða honum starfið hjá Molde.

Høgmo hefur verið orðaður við starf landsliðsþjálfara Íslands að undanförnu, eftir að landi hans, Åge Hareide, hætti eftir tæplega tvö ár við stjórnvölinn.

KSÍ boðaði þrjá þjálfara í viðtal en líklegt þykir að Høgmo hafi verið þar á meðal ásamt Arnari Gunnlaugssyni og Frey Alexanderssyni. Nettavisen greinir einnig frá áhuga Finna á að fá Høgmo til að stýra landsliðinu sínu.

Hinn 65 ára Høgmo er þrautreyndur þjálfari. Hann stýrði meðal annars norska kvennalandsliðinu á árunum 1997-2000 og karlalandsliðinu 2013-16. Síðast var hann við stjórnvölinn hjá Urawa Red Diamonds í Japan en var látinn fara þaðan í desember 2023.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×