Körfubolti

„Ég mun vera með þetta út ferilinn minn, bara fyrir þig“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anthony Edwards sést hér mættur í leik með Minnesota Timberwolves og að sjálfsögðu með appelsínugula armbandið frá Luca.
Anthony Edwards sést hér mættur í leik með Minnesota Timberwolves og að sjálfsögðu með appelsínugula armbandið frá Luca. Getty/David Berding

NBA stjarnan Anthony Edwards yljaði mörgum um hjartaræturnar fyrir það sem hann gerði fyrir ungan strák sem berst við krabbamein.

Luca heitir þessi ungi drengur sem glímir við krabbamein en hann átti þann draum að hitta uppáhaldsköfuboltamann sem er Anthony Edwards, leikmaður Minnesota Timberwolves.

Edwards var tilbúinn að verða við þeirri beiðni og hitti Luca eftir leik hjá Timberwolves.

Luca var líka himinlifandi með að hitta átrúnaðargoðið sitt. Hann kom líka færandi hendi því Luca gaf Edwards appelsínugult armband til minningar um augnablik þeirra saman.

Edwards var ánægður með gjöfina og gaf stráknum líka loforð. „Ég mun vera með þetta út ferilinn minn, bara fyrir þig,“ sagði Anthony Edwards. Þeir tóku síðan myndir af sér saman.

Menn voru fljótir að taka eftir því að Edwards stóð við stóru orðin. Í næsta leik, á móti Los Angeles Clippers í Target Center, þá var Edwards með appelsínugula armbandið á hendinni.

Edwards fór líka á kostum í leiknum og skoraði 37 stig, gaf 8 stoðsendingar og tók 7 fráköst í tveggja stiga sigri. Þetta var því greinilega happaband.

Hér fyrir neðan má sjá augnablikið þegar þeir hittust og Luca gaf honum armbandið. Myndbandið sést með því að fletta.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×