Danski fréttamiðillinn Berlingske greinir frá fundinum sem verður 19:30 annað kvöld.
Þar kemur fram að flokksformennirnir verði upplýstir um afstöðu ríkisstjórnarinnar til þeirrar stöðu sem er kominn upp vegna yfirlýsinga Donalds Trump, tilvonandi Bandaríkjaforseta, um að Bandaríkin vilji ná valdi á Grænlandi og útiloki ekki að beita efnahagslegum þvingunum eða hervaldi.
Danska ríkisstjórnin hefur hins vegar neitað því að það sé krísa í utanríkismálum landsins.
Af hverju Grænland?
Vísir fjallaði í dag um yfirlýsingar Trump og mögulegar skýringar á því hvers vegna hann ásælist Grænland. Líklegasta skýringin er sú að undir jöklum Grænlands, sem hopa hratt, kunna að finnast sjaldgæfir málmar.
„Fólk veit í rauninni ekki einu sinni hvort Danmörk eigi löglegt tilkall til þess [Grænlands]. En ef svo er, ættu þeir að gefa það frá sér, því við þurfum á því [Grænlandi] að halda vegna þjóðaröryggis,“ sagði Trump um málið í gær.
Hann hótaði að beita Danmörku umfangsmiklum tollum til að þvinga ríkið til að láta Grænland af hendi. Þá neitaði hann einnig að útiloka það að beita hervaldi til að ná tökum á Grænlandi.
Donald Trump yngri, sonur forsetans verðandi, lenti svo í Grænlandi í gær en hann sagðist vera þar í fríi og neitaði að tjá sig um samband Grænlands og Bandaríkjanna.