Freyr hélt til Noregs í starfsviðtal hjá Brann í gær en hafði degi fyrr verið í samskonar viðtali hjá KSÍ vegna landsliðsþjálfarastarfs karla í fótbolta. Þorvaldur Örlygsson staðfesti við Stöð 2 í gær að Freyr hefði komið í slíkt viðtal eftir fund með Arnari Gunnlaugssyni vegna starfsins á Hilton-hóteli í gærmorgun.
Brann leitar nýs þjálfara eftir að Eirik Horneland hætti með liðið til að taka við St. Etienne í Frakklandi á dögunum. Hann stýrði Brann í annað sæti norsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.
Brann vildi ráða Mike Tullberg, unglingaliðsþjálfara Dortmund, í starfið en hann hafnaði tilboði félagsins. Myndir náðust af Tullberg á æfingasvæði félagsins þegar hann fór til Björgvins í viðræður.

Þær myndir voru birtar í Bergensavisen, staðarmiðli í Björgvini, og hafa miðlarnir á svæðinu sóst eftir því að ná álíka myndir af Frey eftir heimsókn hans í gær. Blaðamenn biðu hans á flugvellinum á svæðinu og hafa gert dauðaleit í bænum, án alls árangurs.
Í Bergensavisen birtist frétt í dag þar sem blaðamaður lýsir yfir gremju sinni vegna málsins og ber hún einfaldlega fyrirsögnina: „Hvar í fjáranum er þessi Íslendingur?“