Körfubolti

Á­tök í stúdíóinu: „LeBron er að eyði­leggja Lakers“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leifur Steinn Árnason og Maté Dalmay tókust á um LeBron James í Lögmáli leiksins.
Leifur Steinn Árnason og Maté Dalmay tókust á um LeBron James í Lögmáli leiksins. stöð 2 sport

Maté Dalmay gekk fram af Leifi Steini Árnasyni með fullyrðingu sinni um LeBron James í Lögmáli leiksins.

Í Lögmáli kvöldsins voru sérfræðingarnir beðnir um að koma með eina stóra fullyrðingu, svokölluð ofviðbrögð. Og óhætt er að segja að fullyrðing Maté hafi vakið mikil viðbrögð.

Maté sagði nefnilega að LeBron væri að eyðileggja Los Angeles Lakers og hefði átt að hætta, helst í fyrra.

„LeBron, þessi síðustu 2-3 ár eru eins og ef Jordan hefði tekið fjögur ár í Washington Wizards og allt hefði snúist um að hann ætti að taka boltann, taka eitt afturábak stökkskot í viðbót, bæta eitt helvítis metið í viðbót, koma syni sínum í þetta lið. Ég þekki fullt af Lakers-mönnum; þetta er orðið ógeðslega þreytt. Þeir ná ekki einum góðum leikmanni inn í þetta lið,“ sagði Maté.

„Þú getur alltaf sagt að hann tók einn titil en eftir þann titil hefði hann átt að hætta; hleypa einhverjum öðrum að og byrja að byggja liðið á einhverjum öðrum. Eina sem er spennandi að ræða við Lakers er: Þetta er 157.000. stoðsending hjá leikmanni yfir 41 árs. Þetta eru bara vörður eftir vörður sem öllum er drullusama um,“ bætti Maté við.

Klippa: Lögmál leiksins - Ofviðbrögð um LeBron

Þá var röðin komin að Leifi að svara fyrir sinn mann. „Hann er enn einn af tíu bestu leikmönnum í NBA,“ sagði Leifur.

„Hvað ertu að tala um? Viltu að hann hætti? Þetta er ekki Jordan í Wizards. Ertu að grínast? Þetta er enn einn besti leikmaður í heimi. Hann vann Ólympíuleikana nánast upp á sitt einsdæmi.“

Þá var komið að Maté að hneykslast.

„Vann Ólympíuleikana upp á sitt einsdæmi? Ólympíuleikarnir; bandaríska án LeBrons, enginn leikur hefði verið leikur. Þeir hefðu valtað yfir alla ef þeir hefðu spilað eðlilega,“ sagði Leifur.

Innslagið úr Lögmáli leiksins má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. Þáttur kvöldsins hefst klukkan 20:00 á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×