Bloomberg hefur eftir heimildarmönnum sínum innan Microsoft að starfsmenn fyrirtækisins hafi í haust greint umfangsmikla nettraffík sem gaf til kynna að menn, sem taldir eru tengjast kínverska fyrirtækinu DeepSeek, hafi sótt mikið af gögnum úr kerfi ChatGPT.
Í mjög einföldu máli sagt er hér átt við að nota stóra og vel þjálfaða gervigreind, ef svo má segja, til að kenna minni gervigreind að svara fyrirspurnum og leita upplýsinga. Slíkt er bannað samkvæmt notendaskilmálum gervigreindarinnar.
Sjá einnig: Gervigreind fyrir klink veldur Bandaríkjamönnum hausverk
Microsoft er langstærsti fjárfestirinn í OpenAI og hefur dælt milljörðum dala í fyrirtækið.
Hingað til hefur verið talið að ekki sé hægt að framleiða gervigreind eins og ChatGPT án gífurlegs tilkostnaðar í gagnaverum, vefþjónum, öflugum tölvuflögum og fleiru. Kynning DeepSeek á nýrri og ódýrari gervigreind í síðustu viku kollvarpaði þessum þankagangi á mjög skömmum tíma.
Bloomberg hefur eftir David Sacks, sem Donald Trump hefur gert að sérstökum ráðgjafa sínum hvað varðar málefni gervigreindar, að nokkuð sterkar vísbendingar bendi til þess að gervigreind DeepSeek hafi verið fædd á gögnum úr kerfi ChatGPT. Kínverjarnir hafi stuðst við gögn úr bandarísku gervigreindinni við þróun gervigreindar þeirra.
Mögulega hafi verið notast við sérstaka tækni til að láta DeepSeek gervigreindina læra af ChatGPT.
Þetta sagði Sacks í viðtali á Fox í gær en í kjölfarið sendi OpenAI út yfirlýsingu um að ýmsir hópar í Kína væru að reyna að nota þessa tækni til að þróa þeirra eigin útgáfur af gervigreind bandaríska fyrirtækisins.
Forsvarsmenn fyrirtækisins væru meðvitaðir um og að skoða vísbendingar um að DeepSeek hafi gert þetta og að meira yrði gefið út þegar frekari upplýsingar lægju fyrir.
Sjálfir sakaðir um þjófnað
Forsvarsmenn OpenAI hafa lengi sjálfir verið sakaðir um þjófnað enda hefur ChatGPT gervigreindin ítrekað verið þjálfuð með höfundarréttarvörðu efni af internetinu. Fjölmargir rithöfundar, fjölmiðlar og aðrir aðilar hafa höfða mál gegn OpenAI vegna þessa.
Forsvarsmenn DeepSeek hafa enn sem komið er ekki svarað fyrirspurnum fjölmiðla vestanhafs um málið.