Skoðun

Flug­öryggi á Reykja­víkur­flug­velli

Helga Þórðardóttir skrifar

Samgöngustofa hefur fyrirskipað Isavia að loka austur-vestur flugbraut Reykjavíkurflugvallar frá miðnætti 8. febrúar.

Ástæðan er trjágróður í Öskjuhlíð sem skerðir öryggi flugvéla. Í samkomulagi milli ríkis og borgar um framtíð og hlutverk Reykjavíkurflugvallar hefur verið ákvæði um að fara þurfi í trjáfellingar í Öskjuhlíð en Reykjavíkurborg hefur aðeins framkvæmt lítinn hluta af því verkefni. Hik hefur verið hjá borgaryfirvöldum að sinna þessari skyldu sinni og þess vegna er fyrrnefndum flugbrautum lokað.

Þessi staða hefur valdið miklu umróti og skapað óöryggi hjá þjóðinni. Fólk óttast sérstaklega að ekki verði hægt að sinna sjúkraflugi eins og áður. Það muni hafa áhrif á batahorfur og lífslíkur sjúklinga til hins verra að mati fagaðila.

Á ári hverju eru fluttir 950 til 1000 sjúklingar með sjúkraflugi.Í um 45% tilfella er um að ræða sjúklinga sem nauðsynlega þurfa að komast í bráðaþjónustu á Landspítala. Þar er átt við sjúklinga þar sem hver mínúta skiptir máli og á það við um sjúklinga sem fá heilablóðfall, kransæðaþrengingar og alvarlega fjöláverka. Í slíkum tilfellum myndi lengdur flutningstími geta dregið verulega úr lífslíkum og batahorfum viðkomandi sjúklinga. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill minna á að samkvæmt landslögum eiga landmenn jafnan rétt á heilbrigðisþjónustu. Til að tryggja jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu er nauðsynlegt að hafa öruggt sjúkraflug sem hægt er að treysta.

Miðstöð sjúkraflugs á Íslandi og ýmis bæjarfélög hafa sent frá sér yfirlýsingar til borgarstjórnar þar sem aðilar lýsa yfir þungum áhyggjum yfir þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin. Borgarfulltrúi Flokks fólksins tekur þessar yfirlýsingar og áhyggjur alvarlega og hvetur borgaryfirvöld að bregðast við með ábyrgð og leysa máli sem fyrst.

Höfundur er borgarfulltrúi Flokks fólksins.




Skoðun

Sjá meira


×