Tillagan felur í sér að menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra í samráði við fjármálaráðherra, leggi fram frumvarp sem kveði á um að greiðendur útvarpsgjalds geti sjálfir ráðstafað þriðjungi gjaldsins til fjölmiðla að eigin vali.
„Lagt er til að landsmenn hafi valfrelsi um ráðstöfun hluta þessa gjalds. Þannig geti þeir með framlagi sínu tryggt tiltekinn fjölbreytileika í rekstri fjölmiðla landsins. Með því að sitja eitt að þessum gjaldstofni hefur Ríkisútvarpið haft yfirburðastöðu gagnvart öllum öðrum fjölmiðlum, og gildir það um fréttaflutning sem dagskrárgerð. Slík einokunarstaða, sérstaklega ríkismiðils, er óeðlileg nú á tímum og vinnur beinlínis gegn hugmyndum um sjálfstæði og fjölbreytni hugsunar og skoðana,“ segir meðal annars í greinargerð með tillögunni sem dreift var á Alþingi í gær.
Flestir flutningsmenn úr Miðflokknum
Til að Ríkisútvarpið geti rækt skyldur sínar sem fjölmiðill í almannaþágu er nauðsynlegt að mati flutningsmanna þurfi að vera til staðar rými fyrir aðra fjölmiðla á markaðnum sem geti veitt Rúv aðhald og aukið fjölbreytileika í þjóðfélagsumræðunni.
„Áhrif fjölmiðla á samfélagið eru svo viðamikil að fjölmiðlalæsi neytenda er ein af grundvallarforsendum þess að þeir geti talist fullgildir og virkir borgarar í lýðræðisríki. Að veita einum ríkisreknum miðli lungann úr fjölmiðlastyrkjum hins opinbera vinnur gegn þessum markmiðum,“ segir ennfremur í greinargerðinni.
Flutningsmaður tillögunnar er Bergþór Ólason sem er fyrsti flutningsmaður en meðflutningsmenn eru Ingibjörg Davíðsdóttir, Karl Gauti Hjaltason, Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigríður Á. Andersen, Snorri Másson og Þorgrímur Sigmundsson, þingmenn Miðflokksins og Jens Garðar Helgason, Bryndís Haraldsdóttir og Diljá Mist Einarsdóttir þingmenn Sjálfstæðisflokksins.
Fréttin hefur verið uppfærð.