Körfubolti

LeBron með fjöru­tíu stig í fjar­veru Doncic: „Hann storkar lög­málunum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
LeBron James treður boltanum ofan í körfuna í leik Portland Trail Blazers og Los Angeles Lakers.
LeBron James treður boltanum ofan í körfuna í leik Portland Trail Blazers og Los Angeles Lakers. getty/Alika Jenner

Hinn fertugi LeBron James skoraði fjörutíu stig þegar Los Angeles Lakers sigraði Portland Trail Blazers, 102-110, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Luka Doncic var fjarri góðu gamni hjá Lakers vegna kálfameiðsla en LeBron tók á sig auknar byrðar í fjarveru Slóvenans. Hann skoraði fjörutíu stig, tók átta fráköst og gaf fjórar stoðsendingar í leiknum.

LeBron tapaði boltanum ellefu sinnum en hitti úr fjórtán af 24 skotum sínum utan af velli og nýtti öll átta vítaskotin sín. Austin Reaves átti einnig góðan leik og skoraði 32 stig og gaf sjö stoðsendingar.

„Hann storkar lögmálunum yfir það sem telst eðlilegt. Ekki bara líkamlegi þátturinn og það sem hann framkvæmir heldur hugarfarið. Hann er milljarðamæringur og er fertugur að spila annan leikinn sinn á jafn mörgum dögum eftir 22 ár í deildinni og með öll metin og viðurkenningarnar. Það er frábært að þjálfa hann. Hann setur viðmiðið hvernig þú átt að nálgast leikinn,“ sagði JJ Redick, þjálfari Lakers, eftir leikinn í Portland.

LeBron hefur átt tvo fjörutíu stiga leiki síðan hann varð fertugur 30. desember síðastliðinn og Lakers hefur unnið þá báða. Í vetur er hann með 24,3 stig, 7,7 fráköst og 9,0 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Lakers er í 5. sæti Vesturdeildarinnar með 33 sigra og 21 tap. Portland er í 13. sætinu með 23 sigra og 33 töp.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×