Í stuttu máli sagt snýst samkomulagið um að stofna sameiginlegan sjóð en þangað munu fara helmingur af framtíðartekjum ríkisrekinna fyrirtækja sem vinna olíu, gas og málma úr jörðu, og tengdum innviðum.
Þessi sjóður yrði svo notaður til að fjárfesta í öðrum verkefnum í Úkraínu og uppbyggingu.
Sjá einnig: Samkomulag milli Úkraínu og Bandaríkjanna í höfn
Samkomulagið segir ekki til um hvernig eignarhlutum sjóðsins verður skipt upp og á að ræða það frekar seinna. Einnig eru ekki ákvæði um öryggistryggingar handa Úkraínumönnum, eins og þeir hafa reynt að fá.
Neitaði fyrst að skrifa undir
Selenskí neitaði að skrifa undir fyrstu tillögu Bandaríkjamanna en þar krafðist Trump þess að Bandaríkin stjórnuðu sjóðnum að fullu og að nota ætti hann til að greiða fyrir þá hernaðaraðstoð sem Úkraínumenn hafa fengið.
Trump hélt því fram að um væri að ræða fimm hundruð milljarða dala, sem er ekki rétt. Forsetinn bandaríski brást reiður við því þegar Selenskí neitaði að skrifa undir.
Sjá einnig: Kallar Selenskí einræðisherra og varpar fram lygum
Viðræður héldu þó áfram og hafa þær skilað áðurnefndum árangri á undanförnum dögum.
Trump sagði fyrr í dag að Bandaríkjamenn myndu hagnast á samkomulaginu en hann væri ekki tilbúinn til að koma að öryggistryggingum og sagði það á ábyrgð Evrópuríkja.
„En við munum sjá til þess að allt fari vel,“ sagði Trump, samkvæmt Wall Street Journal.
Trump sagði einnig að Úkraínumenn gætu gleymt aðild að Atlantshafsbandalaginu, sem er helsta ósk þeirra varðandi öryggistryggingar. Ýjaði Trump enn og aftur að því að möguleg aðild Úkraínu að NATO væri ástæðan fyrir innrás Rússa.
Ráðamenn í Evrópu hafa sagst tilbúnir til að senda hermenn til Úkraínu til að tryggja að mögulegu friðarsamkomulagi eða vopnahléi verði framfylgt. Þeir segja þó að Bandaríkjamenn yrðu að koma að slíku fyrirkomulagi með loforði um að skerast í leikinn ef í harðbakkann slær.
Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, er í Bandaríkjunum, þar sem hann ætlar að kynna drög að áætlun Evrópuríkja um að senda þrjátíu þúsund hermenn til Úkraínu. Sú áætlun byggir á áðurnefndu loforði Bandaríkjanna og mögulegri aðstoð varðandi eftirlit, loftvarnir og annað.
Ekkert vopnahlé án öryggistrygginga
Ein klausa í samkomulaginu fjallar um það að Bandaríkin styðji viðleitni Úkraínumanna til að öðlast öryggistryggingar sem ætlað sé að tryggja varanlegan frið. Í samkomulaginu stendur einnig að Bandaríkin myndu taka skref til að „verja sameiginlegar fjárfestingar“ ríkjanna, samkvæmt frétt New York Times.
Heimildarmenn New York Times segja bandaríska erindreka hafa sett mikið púður í það að losna við orðalag um einhvers konar öryggistryggingar úr samkomulaginu. Óljósum setningum um mögulega aðkomu Bandaríkjanna var bætt við í lokin.
Lengi hefur verið ljóst að Úkraínumenn séu tilbúnir til að gefa eftir landsvæði fyrir frið. Þeir segja þó að slíkum samningum þurfi að fylgja góðar og bindandi öryggistryggingar, til að tryggja að Rússar verji ekki næstu árum í að byggja upp heri sína á nýjan leik og gera aðra innrás.
Selenskí hefur varað við því að án aðkomu Bandaríkjanna eigi ríki Evrópu erfitt með að veita Úkraínumönnum góðar öryggistryggingar.
Án slíkra ráðstafana er, eins og áður hefur komið fram, fátt sem kemur í veg fyrir að Rússar byggi upp her sinn að nýju á nokkrum árum og geri aftur innrás í Úkraínu. Rússar væru í betri stöðu en Úkraínumenn til að byggja upp efnahag sinn og her á nýjan leik, vegna þeirra miklu skemmda sem árásir Rússa hafa valdið í Úkraínu.
Erfitt gæti verið fyrir Úkraínu að stöðva aðra innrás við slíkar kringumstæður.
Úkraínumenn óttast líka að án góðra öryggistrygginga muni reynast erfitt að fá þá fjölmörgu Úkraínumenn sem hafa flúið land aftur heim.
Selenskí sjálfur ítrekaði það í Kænugarði í dag. Vopnahlé kæmi ekki til greina án öryggistrygginga. Úkraínumenn þyrftu að vera fullvissir um að rússneski herinn sneri ekki aftur til Úkraínu.
"A ceasefire without security guarantees - this will not happen." – Zelensky.
— WarTranslated (@wartranslated) February 26, 2025
The President of Ukraine emphasized that Ukrainians must be certain that "the war will not start again tomorrow." pic.twitter.com/rmp0SWufKP