„Á meðan við náðum að stýra hraðanum og koma fimm leikmönnum aftur fyrir boltann þegar þeir voru að sækja þá vorum við í flottum málum. Við hreyfðum boltann vel lungann úr leiknum en þegar mest á reyndi fórum við að drippla boltanum of mikið, að hnoðast í gegnum miðjuna og í einstaklingsframtök. Það varð okkur að falli líkt og áður á þessu tímabili,“ sagði Viðar Örn Hafsteinss, þjálfar Hattar.
„Við erum með nógu vel samsett lið, ekki nógu vel þjálfaðir og bara einfaldlega ekki nógu góðir heilt yfir til þess að halda okkur uppi. Okkur gekk illa að loka leikjum og fjölmargir leikir í vetur voru eins og þessi. Hörkuleikir þar til í lokin þar sem við förum að gera hlutina öðruvísi en upp er lagt með,“ sagði Viðr Örn þar að auki.
„Nú bara byggjum við upp lið aftur til þess að fara beint aftur upp. Við höfum gert það áður og þetta er enginn heimsendir fyrir körfuna á Egilsstöðum. Það er gott og fjölmennt yngri flokka starf og vel haldið um körfuboltastarfið fyrir austan.
Ég hef engar áhyggjur af því að þetta brjóti okkur á bak aftur og við mætum sterkir til leiks á næstu leiktíð,“ sagði hann um framtíðina í körfuboltanum á Egilsstöðum.
Aðspurður um hvor hann verði áfram í brúnni hjá Hetti sagði Viðar Örn „Ég stýri liðinu áfram, ekki nema að ég verði rekinn. Ég á ekki von á því. Ég hef enn ástríðu fyrir þessu starfi og er staðráðinn í að koma liðinu aftur í deild þeirra bestu,“ sagði þjálfari Hattar um stöðu sína.