Skoðun

Halla Gunnars­dóttir, for­maður VR

Agla Arnars Katrínardóttir skrifar

Ég fagna því að Halla skuli gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku í VR. Hún hefur sýnt að hún er öflugur formaður og talsmaður hagsmuna VR-inga. Í hreyfingu, sem var lengi vel nær eingöngu stýrt af ráðsettum körlum, er tekið eftir ungum konum eins og Höllu og það skiptir máli fyrir okkur öll. Í félaginu er stór hópur af ungu fólki, bæði í fullu starfi og vinnu með námi, sem veltir því ekki mikið fyrir sér hvað VR er eða af hverju stéttarfélög skipta máli. Þennan hóp getur Halla virkjað með því að tala áfram um þau mál sem á okkur brenna, bæði núna og í nánustu framtíð.

Húsnæðismarkaðurinn er ekki glæsilegur fyrir ungt fólk í dag sem vill stofna eigið heimili, hvort sem er með því að leigja eða kaupa húsnæði. Sem stærsta stéttarfélag landsins á VR að hafa mikið vægi í umræðunni um lausnir og til þess þarf rödd félagsins að heyrast. Halla talar um húsnæðismálin með skýrum hætti þannig að allir skilja. Hún hefur líka reynslu og þekkingu af heildarsamtökum launafólks, ASÍ. Þar á VR að vera í lykilhlutverki og stuðla að samstöðu til að koma mikilvægustu málum áfram.

Áhugaleysi ungs fólk um stéttarfélög fylgir því miður of oft lítil þekking á helstu kjara- og réttindamálum sem gerir okkur berskjaldaðri en aðra fyrir tilraunum til að hafa af okkur umsamin kjör. Tilboð um “jafnaðarlaun” fyrir vinnu sem fer meira og minna fram á kvöldin eða um helgar er dæmi um slíkar tilraunir. Með því að ná til okkar og vekja áhuga á stéttarfélaginu og því sem það gerir er um leið verið að stuðla að heilbrigðari vinnumarkaði. Stutt fræðslumyndbönd eins og þau sem Halla hefur verið að birta núna fyrir formannskjörið í VR er dæmi um efni sem við þurfum meira af.

Ég vil því hvetja allt ungt fólk til að kanna fyrst félagsaðild sína og í framhaldinu skora á VRinga að kynna sér málin og kjósa. Allt um Höllu er á www.halla.is og svo er afar einfalt að kjósa á netinu frá 6. mars og fram að hádegi 13. mars. Kosningin er á www.vr.is.

Höfundur er félagi í VR.




Skoðun

Sjá meira


×