Körfubolti

„Urðum okkur sjálfum til skammar“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Durant fór til Phoenix Suns til að gera eitthvað gott en niðurstaðan hefur verið önnur.
Kevin Durant fór til Phoenix Suns til að gera eitthvað gott en niðurstaðan hefur verið önnur. Getty/Kevin Sousa

Kevin Durant var ekkert að draga úr sárum vonbrigðum sínum með frammistöðu Phoenix Suns í tapi á móti Minnesota Timberwolves í NBA deildinni í körfubolta í fyrrinótt. Suns var lengi inn í leiknum en tapaði að lokum með átján stigum.

„Við vorum ekki að spila eins og við gerum kröfur um að við spilum,“ sagði Durant eftir ellefta tap liðsins í síðustu fjórtán leikjum.

„Við gerðum lítið úr stuðningsmönnum okkar og við urðum okkur sjálfum til skammar,“ sagði Durant hispurslaus eftir leik.

Phoenix Suns hefur aðeins unnið 28 leiki á tímabilinu og er nú fjórum sigrum frá síðasta sæti í umspilið um laus sæti í úrslitakeppninni.

Þetta er lið sem ætlaði sér mjög stóra hluti með stórstjörnurnar Kevin Durant, Devin Booker og Bradley Beal í fararbroddi.

Liðið byrjaði tímabilið mjög vel, vann átta af fyrstu níu leikjum sínum en hefur aðeins unnið 20 af 51 leik síðan 13. nóvember. Meiðsli segja einhverja sögu en liðið var fullskipað í stórtapinu á móti Timberwolves um helgina.

„Þegar við lendum í mótlæti þá fljótum við í burtu sem lið. Það er erfitt að sætta sig við það,“ sagði Durant.

Nú er búist við því að það skilji leiðir hjá Kevin Durant og Phoenix Suns í sumar. Félagið mun reyna að finna lið til að býtta á leikmönnum eða valréttum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×