Körfubolti

LeBron fyrstur í fimm­tíu þúsund stigin: „Þetta eru hel­víti mörg stig“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
LeBron James skorar körfuna sem kom honum yfir fimmtíu þúsund stiga múrinn.
LeBron James skorar körfuna sem kom honum yfir fimmtíu þúsund stiga múrinn. afp/RONALD MARTINEZ

LeBron James náði enn einum áfanganum á mögnuðum ferli sínum í nótt. Hann varð þá fyrsti leikmaðurinn í sögu NBA-deildarinnar í körfubolta til að skora fimmtíu þúsund stig.

LeBron skoraði 34 stig þegar Los Angeles Lakers sigraði New Orleans Pelicans í nótt, 136-115. Hann rauf fimmtíu þúsund stiga múrinn snemma í 1. leikhluta þegar hann setti niður þriggja stiga skot eftir sendingu frá Luka Doncic. Það var fyrsta skot LeBrons í leiknum.

„Ég ætla ekkert að tala í kringum þetta. Þetta eru helvíti mörg stig. Ég er mjög lánsamur að hafa náð að skora svona mörg stig í bestu deild í heimi og gegn bestu leikmönnum í heimi. Þetta er frekar einstakt,“ sagði hinn LeBron.

Þessi fertugi leikmaður, sem hefur leikið í NBA frá 2003, hefur nú skorað 41.871 stig í deildarkeppni NBA auk 8.162 stiga í úrslitakeppninni. Samanlagt gera þetta 50.033 stig.

Síðan LeBron varð fertugur 30. desember í fyrra er hann með 26,4 stig að meðaltali í leik, 8,2 fráköst og 8,1 stoðsendingu. Skotnýtingin er 54,1 prósent og 42,3 prósent í þriggja stiga skotum.

Lakers hefur verið á góðu skriði að undanförnu, unnið sjö leiki í röð, sautján af síðustu tuttugu leikjum og er komið upp í 2. sæti Vesturdeildarinnar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×