Körfubolti

„Verð á­fram nema Jóhanna reki mig“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Lárus Jónsson býst við að halda áfram að þjálfa Þór Þorlákshöfn. 
Lárus Jónsson býst við að halda áfram að þjálfa Þór Þorlákshöfn.  Jón Gautur Hannesson

Þór Þorlákshöfn er ekki á leiðinni í úrslitakeppni Bónus-deildar karla í körfubolta. Það varð ljóst eftir tap liðsins gegn Keflavík í lokaumferð deildarinnar. Raunar höfðu önnur úrslit í leikjum nú þegar gert út um vonir Þórsara um að komast í úrslitakeppni þetta árið. Lárus Jónsson er vitanlega vonsvikinn með þá staðreynd. 

„Það eru klárlega vonbrigði að vera ekki að fara í úrslitakeppni og ekki síst að geta ekki gefið stuðningsmönnum okkar og sjálfboðaliðum það krydd í tímabilið sem úrslitakeppnin er. Þegar tímabilið er skoðað eru ýmsar ástæður fyrir því að við náðum ekki markmiðum okkar,“ sagði Lárus Jónsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar þegar niðurstaðan var ljós. 

„Við gerðum mögulega mistök við það hvernig við settum liðið saman í upphafi leiktíðar. Síðan lentum við í áföllum í gegnum veturinn. Til að mynda þegar Steve Ho You Fat meiðist og við það urðum við ansi veikir undir körfunni,“ sagði Lárus þegar hann var beðinn um að súmmera tímabilið upp. 

„Nick Tomsick hefur svo verið að spila meiddur undanfarnar vikur og við gátum tæplega þjösnast meira á honum. Af þeim sökum var tekin sú ákvörðun að hvíla hann í þessum leik og veðja á að við myndum vinna án hans. Það tókst ekki og við förum svekktir í snemmbúið sumarfrí,“ sagði þjálfarinn. 

„Nú er bara að setja þetta tímabil til hliðar, áfram gakk og byrja að byggja upp lið fyrir næstu leiktíð. Það er enginn bilbugur á okkur og við mætum sterkari til leiks næsta vetur. Ég verð áfram í brúnni hjá Þór Þorlákshöfn, ekki nema Jóhanna reki mig. Sjáum hvað setur í þeim efnum,“ sagði Lárus sem hefur stýrt Þórsliðinu frá því vorið 2020. Liðið varð Íslandsmeistari undir hans stjórn vorið 2021. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×