Inga var spurð á því eftir ríkisstjórnarfund í morgun hvernig mál blöstu við henni nú þegar rykið væri að setjast eftir fjaðrafok síðustu daga, þegar Ásthildur Lóa Þórsdóttir sagði af sér ráðherraembætti eftir að greint var frá því að hún hefði eignast barn með táningi þegar hún var á þrítugsaldri.
„Ásta, þú ert hetja,“ sagði hún beint í myndavélina.
Spurð að því hvort henni þætti Ásthildur Lóa raunverulega þurfa að hafa sagt af sér, svona eftir á að hyggja, svaraði Inga að það hefði nú ekkert upp úr sér að velta því fyrir sér „hvað ef“. Þetta hefði verið sú ákvörðun sem fyrrverandi barna- og menntamálaráðherra hefði tekið sjálf, „af stórmennsku“.
„Þetta var hennar ákvörðun og mér finnst hún hafa sýnt bara algjöran hetjuskap,“ sagði Inga.
Hún virti ákvörðun Ásthildar Lóu, sem hún ítrekaði að væri „frábæra“ kona.
„Ég tel að það hefði mátt vanda betur til verka þegar þessi frétt var sett í loftið með svona afgerandi hætti um rangindi sem greinilega voru ekki á rökum reist,“ svaraði Inga, innt eftir skoðun sinni á umfjöllun um málið og gagnrýni á fréttaflutning fjölmiðla.
Sér hefði til að mynda þótt afskaplega leiðinlegt þegar talað hefði verið um það að Ásthildur Lóa hefði „átt barn með barni“, sem var meðal annars slegið upp í erlendum miðlum.
„Þessi ungi maður var tæplega sautján ára gamall þegar hann eignast þennan son, hann átti einn mánuði í það, enda er það algjört aukaatriði í öllu þessu samhengi. Þessi aðför var ómakleg fannst mér, já og hefði viljað sjá hana vandaðri af okkar ríkisfjölmiðli.“
Málinu sé lokið en nú sé Ásthildur Lóa, sem hyggst halda áfram sem þingmaður, að reyna að ná áttum og taka utan um þá ágjöf sem hún hefði ómaklega fengið á sig. Þá ítrekaði Inga kærleikskveðjur til flokkssystur sinnar og lýsti henni aftur sem „hetju“.