Körfubolti

Tólf ára fangelsi fyrir að svindla á NBA stjörnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Dwight Howard varð fyrir barðinu á gráðugum kaupsýslumanni frá Atlanta.
 Dwight Howard varð fyrir barðinu á gráðugum kaupsýslumanni frá Atlanta. Getty/Gene Wang

Kaupsýslumaður frá Georgíu er á leiðinni á bak við luktar dyr í langan tíma eftir að hann var dæmdur sekur um að svindla NBA leikmönnunum Dwight Howard og Chandler Parsons, sem báðir voru stórar stjörnur í deildinni á sínum tíma.

Maðurinn heitir Calvin Darden Jr. og var dæmdur í tólf ára fangelsi af dómstól á Manhattan í New York.

Hann hafði átta milljónir dollara af leikmönnum tveimur. ESPN segir frá.

Í október síðastliðnum var hann dæmdur fyrir að svíkja sjö milljónir dollara, af Dwight Howard, en það eru um 925 milljónir íslenskra króna. Það gerði hann með því að þykjast vera að safna fjárfestum til að kaupa WNBA félagið Atlanta Dream.

Maðurinn er fimmtugur og var búsettur í Atlanta. Hann hafði auk þess eina milljón dollara af Parsons í óskyldu verkefni sem snerist um NBA vonarstjörnuna James Wiseman. Ein milljón dollara eru 132 milljónir íslenskra króna.

Darden þarf að borga aftur þessar átta milljónir dollara en auk þess þurfti hann að láta af hendi lúxushluti sem hann hafði keypt fyrir peninginn. Hann lifði eins og kóngur með allan gróðann úr svindlinu.

Hann þarf meðal annars að láta af hendi 3,7 milljón dollara einbýlishús í Atlanta, sex hundruð þúsund dollara listaverk eftir Jean-Michel Basquiat og bæði Lamborghini og Rolls-Royce bílar.

Darden var ekki í réttarsalnum þegar dómurinn féll og lögfræðingar hans neituðu að tjá sig við fjölmiðla.

Howard var valinn átta sinnum í stjörnuleik NBA og var þrisvar kosinn besti varnarmaður NBA deildarinnar. Hann var valinn af Orlando Magic en varð NBA meistari með Los Angeles Lakers. Parson lék í níu í deildinni með Houston, Dallas, Memphis og Atlanta.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×