Handbolti

Aftur­elding jafnaði metin í bar­áttunni um sæti í Olís-deildinni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Afturelding vann mikilvægan sigur í dag.
Afturelding vann mikilvægan sigur í dag. Handknattleiksdeild Aftureldingar

Afturelding vann mikilvægan sex marka sigur er liðið tók á móti Stjörnunni í öðrum leik liðanna í umspili um sæti í Olís-deild kvenna í handbolta á næsta tímabili.

Olís-deildarlið Stjörnunnar vann fyrsta leik liðanna gegn Grilldeildarliði Aftureldingar og Mosfellingar þurftu því á sigri að halda á heimavelli í dag til að fara ekki með bakið upp við vegg í þriðja leikinn í Garðabænum.

Afturelding setti tóninn snemma í leik dagsins og náði fljótt fjögurra marka forskoti. Stjörnukonur söxuðu hins vegar hægt og rólega á forystuna og jöfnuðu metin í 13-13 með síðasta kasti fyrri hálfleiks.

Heimakonur náðu forystunni þó á ný strax í upphafi síðari hálfleiks og héldu Stjörnukonum í þetta skipti í hæfilegri fjalægð.

Mest náði Afturelding sjö marka forskoti og liðið vann að lokum nokkuð öruggan sex marka sigur, 28-22.

Staðan í einvíginu er því orðin jöfn á ný, 1-1, en vinna þarf þrjá leiki til að tryggja sér sæti í Olís-deildinni á næsta tímabili. Næsti leikur liðanna fer fram í Garðabænum næstkomandi þriðjudag klukkan 19:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×