Fótbolti

María hjálpaði Arnari mikið: „Þá næ ég kannski að­eins að toga hann til baka“

Sindri Sverrisson skrifar
María Builien Jónsdóttir hjálpaði sínum manni, Arnari Gunnlaugssyni, að fá starfið sem aðalþjálfari Víkings og það átti heldur betur eftir að reynast dýrmætt fyrir félagið.
María Builien Jónsdóttir hjálpaði sínum manni, Arnari Gunnlaugssyni, að fá starfið sem aðalþjálfari Víkings og það átti heldur betur eftir að reynast dýrmætt fyrir félagið. Arnar Gunnlaugsson

Í lokaþætti A&B, þáttanna um tvíburana Arnar og Bjarka Gunnlaugssyni, var meðal annars fjallað um það hvernig Arnar fékk starfið sem aðalþjálfari Víkings. Kona hans, María Builien Jónsdóttir, átti sinn þátt í því.

Eftir ör þjálfaraskipti hjá Víkingum tók Arnar óvænt við sem aðalþjálfari, eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari sumarið 2018, og við tóku langbestu tímar í sögu félagsins með fjölda titla og einstöku Evrópuævintýri.

Ráðningin á Arnari kom hins vegar mögum á óvart en honum tókst að sannfæra forráðamenn Víkings, með aðstoð tölvunarfræðingsins Maríu sem hjálpaði sínum heittelskaða að fastmóta hugmyndir sínar, eins og sjá má í broti úr þáttunum hér að neðan.

Klippa: A&B - Hvernig Arnar fékk starfið hjá Víkingum

„Hann hefur samband við mig og fattar það að hann er kannski ekki alveg inni á radarnum hjá okkur,“ sagði Heimir Gunnlaugsson sem var formaður meistaraflokksráðs Víkings þegar Arnar var ráðinn. Arnar kom sér hins vegar inn á radarinn og gott betur en það og María rifjaði upp hvernig Arnar varð staðráðinn í að fá starfið:

„Þetta var eftir lítið lokahóf í Víkinni. Þá kemur allt í einu: „Heyrðu, ég gæti alveg séð þetta fyrir mér, að ég gæti tekið þetta að mér.“ Þá komu milljón hugmyndir í hausinn á honum. Þá dettur inn einhver metnaður í hann: „Ég ætla að ná þessu. Ég ætla að fá þetta starf.““

„María hjálpaði mér mikið við að koma þessu á blað“

„Sýnin var mjög klár og skýr í hausnum á mér. Að koma því frá mér var allt önnur Ella. María konan mín, tölvunarfræðingurinn mikli, hjálpaði mér mikið við að koma þessu á blað,“ sagði Arnar, þakklátur fyrir hjálpina sem átti eftir að reynast svo óhemju dýrmæt fyrir bæði hann og Víkinga alla.

„Ég hjálpaði honum að koma þessu í kynningu og orða hlutina rétt. Og kannski setja þetta fram á raunsæjan hátt. Nú er hann með svo miklar hugmyndir og ætlar að fara alla leið en þá næ ég kannski aðeins að toga hann til baka. Þú þarft líka að sýna að þú sért ekki bara þessi geggjaði fótboltamaður með svakalegar hugmyndir, heldur að þú vitir hvernig þú ætlar að framkvæma þær. Það hefur kannski verið hans Akkilesarhæll stundum að hann er með svo frábærar hugmyndir en á erfitt með að bara: „Heyrðu, komum þessu í framkvæmd.““

Arnar setti fram sínar hugmyndir og útskýrði meðal annars hvernig hann sá fyrir sér að Víkingur myndi með því að fá unga leikmenn geta veitt allra bestu liðum landsins samkeppni.

„Vendipunkturinn minn held ég að hafi verið þessi sterka sýn um að Víkingur hefði verið lið málaliða undanfarin ár. Mikið af útlendingum, mikið af málaliðum sem hefðu bara verið að hirða launaseðilinn en væri í raun alveg sama um klúbbinn. Klúbburinn var ekki með neitt DNA hvað varðar leikstíl…“ sagði Arnar en brot úr þættinum má sjá hér að ofan.

Þáttaröðina A&B má finna í heild sinni á efnisveitunni Stöð 2+.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×