Sport

Á­kalli svarað með afreksmiðstöð

Aron Guðmundsson skrifar
Vésteinn Hafsteinsson og Kristín Birna hjá ÍSÍ með Eygló Fanndal Sturludóttur og Valgarði Reinhardssyni afreksfólki í íþróttum
Vésteinn Hafsteinsson og Kristín Birna hjá ÍSÍ með Eygló Fanndal Sturludóttur og Valgarði Reinhardssyni afreksfólki í íþróttum Vísir/Ívar Fannar

Af­rek­smiðstöð Ís­lands, stjórnstöð af­reksíþrótta hér á landi var ýtt úr vör í gær. Til­gangur hennar er að skapa okkar fremsta íþrótta­fólki vett­vang til að komast í hóp þeirra bestu á alþjóð­legum vett­vangi. Miðstöðin er ekki fjár­mögnuð að fullu en sam­takamátt alls sam­félagsins þarf til að sjá til þess að hún blómstri.

„Þetta er stjórntæki af­reksíþrótta í landinu,“ segir Vé­steinn Haf­steins­son, fráfarandi af­reks­stjóri ÍSÍ sem mun taka við stöðu ráðgjafa í hinni nýju af­rek­smiðstöð. 

„Miðlægt stjórntæki því ef öll sér­sam­böndin væru sjálf­bær þá gætum við verið með þessa vinnu sjálf, það er ekki þannig. Við erum því að ráða fólk í vinnum. Sál­fræðinga, næringar­fræðinga, styrktar- og út­haldsþjálfara og svo fram­vegis í sam­bandi við að hjálpa sér­sam­böndunum að hjálpa sér sjálfum í að ná betri árangri í íþróttum og búa til þessa um­gjörð sem er alls staðar gert í kringum okkur. Núna erum við að koma þessu af stað.“

Að byggja upp og styðja við afreksíþróttafólk og skapa þeim aðstæður til komast í hóp þeirra bestu á alþjóðlegum vettvangi. Sú vinna hefst snemma og hún hefst hér heima. Efnilegt íþróttafólk og lið, líkleg til að ná árangri, eru valin eftir ákveðnum viðmiðum. Með öflugum stuðningi við afreksíþróttafólkið verða um leið til betri þjálfarar, dómarar og leiðtogar.

Tilgangur Afreksmiðstöðvar Íslands

Af­rek­smiðstöðin, sem lesa má nánar um á með­fylgjandi heimasíðu, er af­rakstur ára­tuga langrar vinnu en sem fag­legur vett­vangur fyrir af­reks­fólk Ís­lands mun miðstöðin einnig starfa náið með sér­sam­böndum ÍSÍ sem og íþrótta­félögum landsins, fram­halds­skólum, háskólum, vísinda­sam­félaginu sem og okkar helstu sér­fræðingum. Verk­efnið er þó ekki fjár­magnað að fullu.

„Nei ekki full­fjár­magnað en það er vinna í gangi, bæði í sam­bandi við fjár­málaáætlun næstu ára að vori og fjár­lög að hausti. Þetta gengur út á sam­skipti, sam­vinnu og samræði við ráða­menn,“ segir Vésteinn.

Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri ÍSÍ, segir það vissulega vonbrigði að aðeins stefni í að Ísland eigi fimm fulltrúa á Ólympíuleikunum í París.Vísir/Ívar

„Styrk­leiki þessa verk­efnis er sá að íþrótta­hreyfingin með ríki, sveitarfélögum at­vinnulífinu og skóla­kerfinu er að vinna í þessu saman. Það gengur út á að við séum að átta okkur á því að við vinnum gullið út frá flottu þjóðfélagi á sama tíma og við erum að vinna í lýðheilsu, farsæld barna og ung­linga, al­menningsíþróttum og svo erum við líka að búa til dómara og þjálfara.

Allt þetta gerir það að verkum að þetta er enda­laust for­varnar­starf. Enda­laust að koma í veg fyrir skaðann og ekki hlaupa til þegar að hann er þegar skeður. Sjá til þess að krakkar séu bæði í menningu, listum og íþróttum. Það er það besta sem krakkar geta gert og út úr því kemur gullið. Svo­leiðis hugsum við þetta til langs tíma.“

Evrópumeistarinn Eygló spennt

Og nýtil­komin af­rek­smiðstöð er spennandi í augum einnar af okkar helstu af­reksíþrótta­mönnum Eygló Fann­dal Sturlu­dóttur sem varð á dögunum Evrópu­meistari í Ólympískum lyftingum.

Eygló Fanndal Sturludóttir með gullverðlaunin sín á EM.Instagram/@eyglo_fanndal

„Þetta lítur ótrú­lega vel út og ég er ekkert smá spennt fyrir því hvað þetta mun gera fyrir okkur íþrótta­fólkið. Ég held að þetta muni hjálpa okkur alveg gríðar­lega mikið og er mjög spennt fyrir þessu.“

Hvað er það einna helst sem að gerir þig spennta fyrir þessu?

„Það sem mun aðal­lega hjálpa mér er þessi um­gjörð sem verður í kringum mann. Maður þarf svo ótrú­lega mikla hjálp þegar að maður er í af­reksíþróttum, maður gerir þetta ekki einn. Það verður mjög gott að hafa allt þetta fag­fólk í kringum sig sem getur leiðbeint og hjálpað manni, svo mun þessi launa­sjóður nýtast gríðar­lega vel.“

Eygló nefnir þarna launa­sjóð af­rek­smiðstöðvarinnar sem er ætlað að létta undir fjár­hags­lega með okkar af­reks­fólki og auðvelda því að ein­blína á sína íþrótt.

„Það spilar auðvitað mjög mikið inn í. Maður er á æfingu allan daginn, er ekki að ná að vinna launaða vinnu og þetta er til margra ára sem maður er að stunda sína íþrótt. Það eru ekkert allir sem hafa tækifæri á að velja þessa leið í lífinu, að stunda íþróttir og vera tekju­laus í þetta mörg ár. Þetta mun hjálpa og ég er líka bara spennt að sjá aðra geta sinnt sinni íþrótta enn þá betur og fara alla leið.“

Ákalli síðustu ára svarað

Kristín Birna Ólafs­dóttir, sem tekur við stöðu Vé­steins Haf­steins­sonar sem af­reks­stjóri ÍSÍ, segir að með af­rek­smiðstöðinni sé verið að svara ákalli undan­farinna ára.

Kristín Birna Ólafsdóttir tekur við stöðu afreksstjóra ÍSÍVísir/Ívar

„Það hefur verið ákall eftir af­rek­smiðstöð í fjölda­mörg ár og mikið sam­tal átt sér stað innan sem og utan íþrótta­hreyfingarinnar um að efla um­gjörð af­reksíþrótta­fólksins, toppanna okkar. Það er ekki nóg, ef við ætlum að vera sam­keppnis­hæf á alþjóða­vísu, að vera með hæfi­leikana, vera dug­legur og með góðan þjálfara þó þetta sé allt lykil­at­riði. Þetta þarf þessa um­gjörð sem við erum að skapa í dag með fag­fólki á mis­munandi sviðum. Við erum að tala um sál­fræðinga, næringar­fræðinga og allt þetta fag­fólk sem verður að vera til staðar fyrir af­reksíþrótta­fólkið okkar. Þetta er mjög mikilvægt skref fyrir af­reksíþróttir á Ís­landi og ég er rosa­lega spennt fyrir fram­haldinu.“

Gullni þráðurinn í öllu starfi miðstöðvarinnar sé að skapa um­hverfi fyrir okkar af­reksíþrótta­fólk til að sækja fram.

„Það er bara akkúrat mark­miðið með þessu. Að hjálpa íþrótta­fólkinu að verða besta út­gáfan af sjálfu sér. Þau geta gert það með því að helga sínu lífi al­gjör­lega íþróttinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×