Körfubolti

Önnur sigurkarfa Gordons í úr­slita­keppninni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Samherjar Aarons Gordon fagna með honum eftir að hann skoraði sigurkörfu Denver Nuggets gegn Oklahoma City Thunder.
Samherjar Aarons Gordon fagna með honum eftir að hann skoraði sigurkörfu Denver Nuggets gegn Oklahoma City Thunder. getty/AAron Ontiveroz

Aaron Gordon hefur heldur betur reynst Denver Nuggets mikilvægur í úrslitakeppninni í NBA. Í nótt skoraði hann sigurkörfu Denver gegn Oklahoma City Thunder. Þetta var önnur sigurkarfa hans í úrslitakeppninni.

Gordon setti niður þriggja stiga skot þegar 2,8 sekúndur voru eftir af leiknum og tryggði Denver sigur, 119-121. Gordon skoraði einnig sigurkörfu Denver gegn Los Angeles Clippers í fjórða leik liðanna í 1. umferð úrslitakeppninnar. Denver vann það einvígi í oddaleik, 4-3.

Gordon skoraði 22 stig og tók fjórtán fráköst. Nikola Jokic var atkvæðamestur hjá Denver með 42 stig, 22 fráköst og sex stoðsendingar. Jamal Murray skoraði 21 stig og Russell Westbrook átján. Denver leiðir einvígið, 1-0.

Shai Gilgeous-Alexander skoraði 33 stig, tók tíu fráköst og gaf átta stoðsendingar í liði Oklahoma. Alex Caruso kom með tuttugu stig af bekknum.

Þrátt fyrir að vera tuttugu stigum undir í seinni hálfleik sigraði New York Knicks meistara Boston Celtics eftir framlengdan leik í Austurdeildinni, 105-108.

Jalen Brunson og OG Anunoby skoruðu 29 stig hvor fyrir Knicks sem sló Detroit Pistons úr leik í 1. umferðinni, 4-2.

Jayson Tatum og Jaylen Brown voru báðir með 23 stig hjá Boston sem skoraði aðeins sextán stig í 4. leikhluta og fimm í framlengingunni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×