Erlent

Breyttur tónn og reiður yfir gagn­rýni vegna flugvélagjafarinnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Sheikh Tamim bin Hamad al Thani, emír Katar, í Doha í dag.
Donald Trump og Sheikh Tamim bin Hamad al Thani, emír Katar, í Doha í dag. AP/Alex Brandon

Donald Trump og fjölskylda hans eiga í umfangsmiklum viðskiptum í Mið-Austurlöndum og vill forsetinn þar að auki taka við lúxusþotu í gjöf frá konungsfjölskyldu Katar. Flugvélin er metin á um 53 milljarða króna. Hann hefur brugðist reiður við gagnrýni á gjöfina og segist ekkert vita um viðskipti sona sinna á svæðinu.

Þó nokkrir þingmenn Repúblikanaflokksins hafa lýst yfir áhyggjum af því að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ætli að taka við fjögur hundruð milljón dala flugvél sem gjöf frá konungsfjölskyldu Katar. Til stendur að nota flugvélina, sem hefur verið lýst sem fljúgandi höll, sem forsetaflugvél Bandaríkjanna.

Stjórnarskrá Bandaríkjanna segir að forsetar megi ekki þiggja gjafir, laun eða titla frá erlendum ríkjum, án þess að þingið samþykki það.

Trump og hans fólk segir þó að flugvélin eigi ekki að vera gjöf til hans, heldur vilji yfirvöld í Katar gefa hana til flughers Bandaríkjanna. Eftir að embætti Trumps lýkur á að gefa flugvélina til forsetabókasafns Trumps, þar sem hann gæti haft afnot af henni áfram, þó hann segist ekki ætla að gera það.

Wall Street Journal segir að margir þeirra Repúblikana sem hafa lýst yfir áhyggjum af gjöfinni hafi vísað til öryggismála, kostnaðar og getu flugvélarinnar.

Til að mynda segja þeir að erfitt og kostnaðarsamt verði að tryggja að höllin fljúgandi sé laus við hlerunar- og eftirlitsbúnað, óljóst er hvort hægt sé að fylla á eldsneytistanka flugvélarinnar í háloftunum og hvort hún beri þann samskiptabúnað sem forsetaflugvél þarf.

Dýrt sé að gera þessar breytingar reynist þær nauðsynlegar og þar að auki myndu þær taka mikinn tíma.

„Þegar ég segi að fara þyrfti yfir hvern fersentímetra þessarar flugvélar, þá meina ég það,“ sagði öldungadeildarþingmaðurinn Thom Tillis.

Það væri gífurlega mikil vinna og kostnaður fyrir flugvél sem yrði kannski notuð í þrjú og hálft ár.

Trump ræddi flugvélina í viðtali við Sean Hannity á Fox News í gær.

Var spilling árið 2016

Eins og rifjað er upp í grein Washington Post talaði Trump árið 2016 um fjárveitingar frá öðrum ríkjum til góðgerðasamtaka Clinton fjölskyldunnar, og þar á meðal frá Katar og Sádi-Arabíu, sem hreina og klára spillingu.

„Þetta eru glæpasamtök. Sádi-Arabía er að gefa 25 milljónir dala, Katar, öll þessi lönd,“ sagði Trump í kappræðum við Hillary Clinton árið 2016. Þá gagnrýndi hann mótframbjóðanda sinn fyrir að taka við peningum frá þessum ríkjum, þar sem komið væri hræðilega fram við konur og samkynhneigt fólk.

Hann sló reglulega á svipaða strengi og árið 2017 gagnrýndi hann Katar fyrir að hafa í gegnum árin styrkt hryðjuverkasamtök.

Síðan þá hefur Trump litið Sádi-Arabíu og Katar í mun jákvæðra ljósi, þrátt fyrir að ástandið hvað varðar mannréttindi ýmissa hópa þar sé enn slæmt. Þessi ríki hafa á undanförnum árum átt í töluverðum viðskiptum við fyrirtæki Trumps og fjölskyldu hans.

Trump fór til Sádi-Arabíu í gær en í dag mun hann fara til Katar.

Nýr tónn og reiður yfir mótbylgjum

Nú er tónninn annar. Trump sagði í gærkvöldi að einungis fífl myndi hafna svona gylliboði. Þetta væri fallegur vottur um vináttu og kallaði þá sem gagnrýnt hafa gjöfina væntanlegu heimska.

Forsetinn skrifaði á samfélagsmiðil sinn að konungsfjölskyldan í Katar vildi verðlauna Bandaríkin fyrir góð störf með þessari gjöf. Um mikinn sparnað væri að ræða og honum yrði í staðinn varið í að gera Bandaríkin mikil á nýjan leik.

Demókratar hafa eðli málsins samkvæmt einnig verið mjög gagnrýnir á þessa gjöf frá Katar. Chuck Schumer, leiðtogi flokksins í öldungadeildinni, lýsti því yfir í gær að hann ætlaði að stöðva tilnefningar allra þeirra sem Trump hefur tilnefnt í embætti innan dómsmálaráðuneytisins vegna gjafarinnar.

Þegar Trump var spurður út í yfirlýsingu Schumer brást hann reiður við, samkvæmt frétt Newsweek og annarra miðla.

„Schumer þú veist, hann er orðinn að Palestínumanni,“ sagði Trump.

„Það er eitthvað að honum. Ég veit ekki. Ég hef þekkt hann lengi og það er eitthvað að.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Trump kallar Schumer, sem er af gyðingaættum, Palestínumann. Það gerði hann einnig í mars og var hann harðlega gagnrýndur fyrir það, eins og fram kemur í frétt Guardian.

„Fyrir mér er hann orðinn Palestínumaður,“ sagði Trump þá. „Hann var gyðingur. Hann er ekki lengur gyðingur. Hann er Palestínumaður.“

Segist ekkert vita um viðskipti sonanna í Mið-Austurlöndum

Eric og Donald Jr. Trump, synir forsetans, ferðuðust til Mið-Austurlanda á undan föður þeirra. Það gerðu þeir meðal annars til að sækja ráðstefnu um rafmyntir, vinna að viðskiptasamningum fyrir fjölskyldufyrirtækið og heimsækja Trump-turninn í Dubaí.

Eric Trump sótti áðurnefnda ráðstefnu með Zach Witkoff, syni Steve Witkoff, sem er sérstakur erindreki forsetans. Eric og Zach stofnuðu saman fyrirtækið World Liberty Financial, sem er rafmyntarfyrirtæki í eigu Trump-fjölskyldunnar.

Á þessari ráðstefnu tilkynnti ríkisstyrkt fjárfestingafyrirtæki frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum að rafmynt WLF hefði verið valin til að vera notuð í tveggja milljarða dala fjárfestingu sjóðsins í Binance, stærstu rafmyntakauphöll heims.

Gagnrýnendur segja, samkvæmt AP, að slíkt myndi gera fjölskyldu forsetans kleift að græða töluvert á fjárfestingunni.

Trump var spurður út í þessar vendingar af blaðamönnum í dag og svaraði á þá leið að hann vissi ekkert um málið.

Áður hafði Karoline Leavitt, talskona Trumps, verði spurð út í það hvort Trump myndu funda með aðilum sem ættu í viðskiptum við fjölskyldufyrirtæki hans. Hún sagði fáránlegt að gefa í skyn að Trump myndi gera eitthvað í embætti sem hagnaðist honum persónulega.

Hann færi alfarið eftir lögum.

Fréttin hefur verið uppfærð vegna mistaka um hvað flugvélin er metin á.


Tengdar fréttir

Hóta að standa í vegi „fallegs“ frumvarps

Þingmenn Repúblikanaflokksins lögðu í gær fram gífurlega umfangsmikið lagafrumvarp um skattheimtu og málefni innflytjenda. Frumvarp þetta felur í sér skattalækkanir, fjármagnaðar með niðurskurði innan velferðarkerfisins og á grænum verkefnum og með því að fella úr gildi niðurfellingu Joes Biden á námslánum.

Trump með verri ímynd á heimsvísu en Xi og Pútín

Í fleiri löndum heimsins ríkir jákvæð sýn gagnvart Kína en til Bandaríkjanna og algjört hrun hefur orðið á ímynd Bandaríkjanna á heimsvísu frá því í fyrra. Þá mælist ímynd Donalds Trump Bandaríkjaforseta neikvæð í 82% landa um allan heim, en ímynd bæði Pútíns Rússlandsforseta og Xi Jinping forseta Kína mælist betri á heimsvísu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×