Körfubolti

Lygilegur endurkomusigur Indiana í MSG

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Indiana Pacers fagna eftir að Tyrese Haliburton skoraði síðustu körfu venjulegs leiktíma gegn New York Knicks. Hann hélt að hann hefði tryggt liðinu sigurinn en reyndist svo hafa skorað tveggja stiga körfu en ekki þriggja.
Leikmenn Indiana Pacers fagna eftir að Tyrese Haliburton skoraði síðustu körfu venjulegs leiktíma gegn New York Knicks. Hann hélt að hann hefði tryggt liðinu sigurinn en reyndist svo hafa skorað tveggja stiga körfu en ekki þriggja. getty/Al Bello

Þrátt fyrir að vera níu stigum undir þegar innan við mínúta var eftir af leiknum vann Indiana Pacers New York Knicks, 135-138, í fyrsta leik liðanna í úrslitum Austurdeildar NBA í nótt.

Þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af leiknum í Madison Square Garden leiddi Knicks með fjórtán stigum. Og þegar 58 sekúndur voru eftir kom Jalen Brunson heimamönnum níu stigum yfir, 121-112. En þá hófst eftirminnileg endurkoma Indiana.

Aaron Nesmith skoraði ellefu stig og Tyrese Haliburton jafnaði svo metin í 125-125 með síðasta skoti venjulegs leiktíma. Hann hélt reyndar að hann hefði tryggt Pacers sigurinn og fagnaði með því að halda um hálsinn á sér. Þar vísaði hann í frægt fagn Reggies Miller í leik Pacers og Knicks 1994 sem var beint gegn leikstjórarnum Spike Lee.

Eftir að karfan hafði verið skoðuð kom í ljós að Haliburton var fyrir innan þriggja stiga línuna og því þurfti að framlengja. Þar reyndust gestirnir sterkari aðilinn, skoruðu síðustu fjögur stigin og unnu ótrúlegan endurkomusigur, 135-138.

Haliburton skoraði 31 stig og gaf ellefu stoðsendingar. Nesmith skoraði þrjátíu stig og hitti úr átta af níu þriggja stiga skotum sínum. Hann skoraði sex þrista í 4. leikhluta sem er jöfnun á meti í sögu úrslitakeppninnar.

Brunson skoraði 43 stig fyrir Knicks og Karl-Anthony Towns 35 auk þess að taka tólf fráköst.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×