Lífið

„Þessi þriggja daga há­tíð er al­gjört konfekt”

Lovísa Arnardóttir skrifar
Fyrstu tvö kvöldin eru helguð verkum eftir nemendur á fyrsta og öðru ári í náminu, en lokaverkefni útskriftarnemanna verða sýnd síðasta dag hátíðarinnar. 
Fyrstu tvö kvöldin eru helguð verkum eftir nemendur á fyrsta og öðru ári í náminu, en lokaverkefni útskriftarnemanna verða sýnd síðasta dag hátíðarinnar.  Aðsend

Kvikmyndahátíðin FILMA verður haldin í annað sinn dagana 27. til 29. maí næstkomandi í Bíó Paradís. Nemendur Kvikmyndalistadeildar Listaháskóla Íslands sýna þar verk sín. Í vor útskrifast fyrsti árgangur deildarinnar og eru þá nemendur að útskrifast í fyrsta sinn með háskólagráðu í kvikmyndagerð frá íslenskum háskóla.

„Þessi þriggja daga hátíð er algjört konfekt fyrir áhugafólk um kvikmyndir og kvikmyndagerð. Fyrstu tvö kvöldin eru helguð verkum eftir nemendur á fyrsta og öðru ári í náminu, en lokaverkefni útskriftarnemanna eru rúsínan í pylsuendanum,“ segir Guðrún Elsa Bragadóttir, fagstjóri fræða í kvikmyndalistadeild.

Verk útskriftarnemanna verða sýnd á fimmtudag, uppstigningardag, í tvígang. Fyrst klukkan 16:30 og svo aftur klukkan 19:00.

„Nemendur sérhæfa sig á ólíkum sviðum og útskriftarverkin eru jafn ólík og þau eru mögnuð. Útskriftarsýningin hefst á leiklestri úr verkum nemenda í handritsgerð og í kjölfarið sýnum við stuttmyndir eftir nemendur sem sérhæfðu sig í leikstjórn, framleiðslu og kvikmyndatöku,“ segir Guðrún Elsa.

Alls verða yfir þrjá daga sýnd tugir lokaverkefni nemenda en að neðan má sjá upptalningu á öllum verkum og lýsingu á þeim.

27. maí, kl. 19, Salur 1 // Bíó Paradís: Lokaverkefni nemenda á 1. ári

28. maí, kl. 19, Salur 1 // Bíó Paradís: Lokaverkefni nemenda á 2. ári

29. maí, kl. 17 og 19, Salur 1 // Bíó Paradís: Verk útskriftarnema

Lokaverkefni nemenda á 1. ári

Elísabeth Anna Gunnarsdóttir: „Í dögun rís ný sól”

Þegar Perla og Aron eru pakka niður fyrir flutninga hennar þvert yfir landið koma upp gömul ágreiningsmál og bældar tilfinningar sem neyða þau til að horfast í augu við hvort sambandið muni lifa af vaxandi fjarlægðina.

Snædís Lilja Viðarsdóttir: „Pappadraumar”

Eftir afmæli bekkjarsystur sinnar verður Ástrós heltekin af þeirri hugmynd að hafa einhyrningspinjötu í sinni eigin afmælisveislu, sem er rétt handan við hornið.

Sølvi Næs Hoydal: „Hérinn”

Stressaður athafnamaður á erfitt með að finna jafnvægið milli vinnu og fjölskyldu, en þegar venjuleg bílferð tekur óvænta stefnu neyðist hann til að horfast í augu við hverfulleika lífsins.

Jun Gunnar Lee Egilsson: „Kveðja, röð 9 sæti 1”

Bergur er ráðvilltur eftir að hafa verið hafnað í kvikmyndaskóla. Vonlaus og týndur fær hann óvænta leiðsögn hjá Eyjólfi, gömlum fastakúnna bíósins, sem stendur fyrir vikulegum sýningum á klassískum myndum.

Jóna María Hjartardóttir: „Hekla”

Í miðjum jarðhræringum neyðist ung kona til að horfast í augu við mistök gærkvöldsins í kveðjuhófi bestu vinkonu sinnar.

Orri Guðmundsson: „Til hamingju, fáviti”

Endurfundir tveggja gamalla vina hafa óvæntar afleiðingar í mynd um heppni, von og samkeppni.

Höskuldur Þór Jónsson: „Gegnheil eik”

Í hinu daglega amstri þarf Hlynur að horfast í augu við örlögin. Hann gengur inn á smíðaverkstæði þar sem ungur smiður mætir honum, samskipti þeirra eiga eftir að hafa djúpstæð áhrif á þá báða.

Sturla Sólnes: „Ber er hver að baki”

Í kjölfar hrunsins þarf bankamaðurinn Hallgrímur á hjálp bróður síns að halda. Brestir í sambandi þeirra koma í ljós og togstreitan milli þeirra brýst fram í taugatrekkjandi golfleik.

Stilla úr mynd Ástu Kristjánsdóttur, Pallíettur. 

Íris Þöll Hróbjartsdóttir: „Dauðadjúp”

Þegar Helga týnist í hulduheimum þarf hún að taka óyfirstíganlega ákvörðun til að snúa aftur til síns heima.

Alexandra Sól Jónasdóttir: „Á rauðum þræði”

Ungur barþjónn með lítið á milli handanna fær freistandi boð sem gæti bætt fjárhagsstöðu hennar – en ekki er allt sem sýnist.

Ernir Ómarsson: „Litli trommuleikarinn”

Þegar Baldur, ungur og efnilegur trommari, gengur til liðs við vinsæla rokkhljómsveit, áttar hann sig á gríðarlegum sviðskrekk sínum. Í leit að lausn grípur hann til áfengis, sem lagar sum vandamál en skapar önnur, enn stærri.

Stefanía Stefánsdóttir: „Hræ”

Á björtum sumardegi eru fjórir vinir á leiðinni á tónlistarhátíð úti á landi þegar hið ólýsanlega gerist.

Lokaverkefni nemenda á 2. ári

Elizabeth Karen Guarino: „Nonni”

Þegar Nonni þarf óvænt að passa frænda sinn og fær nóg af unglingastælunum í honum, ákveður hann að sýna sitt rétta andlit.

Álfheiður R. Sigurðardóttir: „Óáran”

Vetur hefur geysað á Íslandi samfleytt í 5 ár. 72 prósent landsmanna hafa flúið land til Timbuktu. Jóhanna heldur úti útvarpsþætti í bókabúðinni sinni til að ná endum saman. Eitt kvöldið gefur hún hlustendum sínum von um bjartari tíma.

Egill Sigurðsson: „Karaoke”

Kona sem syrgir manninn sinn hefur ekki getað heyrt tónlist síðan hann dó. Þegar hún heyrir að samkvæmt þjóðtrú eigi síðasta lagið sem eiginmaður hennar söng að geta læknað hana, vonast hún eftir sálarró.

Stilla úr mynd Juns Gunnars Lee Egils, Kveðja. Aðsend

Steinar Þór Kristinsson: „Hindurvitni”

Fimmtíu ár eru liðin frá hvarfi drengs. Ekkert lík fannst og engin svör. En sá sem þekkti hann best heldur því enn fram að eitthvað ómannlegt hafi náð til hans og dregið hann með sér.

Úlfur Elíasson Arnalds: „Í skugga úlfsins”

Þegar Máni endar matarboð með vinum sínum, Magnúsi og Soffíu, á skringilegri hryllingssögu um varúlf, opnar hann sig meira en hann ætlaði sér í upphafi.

Telma Huld Jóhannesdóttir: „Dropi”

Í björtum ævintýraheimi leika Hlynur og bleiki bangsinn Dropi sér saman, en þegar þeir reita Nautamanninn til reiði kemur í ljós af hverju Hlynur reynir helst að flýja raunveruleikann.

Brynjar Leó Hreiðarsson: „Marteinn”

Markþjálfinn Marteinn gerir allt sem hann getur til að hjálpa óánægðum kúnna að eignast vini.

Egill Spanó: „Aperol 25”

Ungur maður er lagður inn á meðferðarheimili fyrir unga karlmenn. Hann glímir við minnisleysi eftir bílslys og hlustar þess vegna í sífellu á kassettuspólur. Á meðan hann hlustar byrja slitróttar minningar að líta aftur dagsins ljós og hann þarf að horfast í augu við óþægilegan sannleika.

Ásta Kristjánsdóttir: „Pallíettur”

Friðgeir er virðulegur maður á áttræðisaldri. Á meðan hann græjar sig fyrir afmælið sitt birtist honum dragdrottning og hann þarf að ákveða hvort hann sé tilbúinn til að lifa því litla sem hann á eftir af lífinu í frelsi.

Luis Carlos Aleman Furlan: „Á milli línanna”

Blær, ungt og ástríðufullt leikskáld, er undir miklu álagi við að setja upp frumverk sitt. Þegar Rósa, fyrrum vinkona hennar, kemur í áheyrnarprufu fyrir aðalhlutverkið fer línan á milli listar og lífs að þynnast og gömul sár rifjast upp.

Stilla úr mynd Orra Guðmundssonar, Til hamingju, fáviti. Aðsend

Alfreð Hrafn Magnússon: „Óð”

Gunnar og Aldís eru á leið í rómantíska sveitaferð þegar þau verða vör við að einhver veitir þeim eftirför.

Hanna Hulda Hafþórsdóttir: „Þessi fallegi dagur”

Þegar örvæntingarfull kvikmyndagerðarkona fær óvænt starf sem tökumaður í brúðkaupi kemst hún óvart að ýmsum leyndarmálum milli brúðhjónanna.

Verk útskriftarnema

Alvin Hugi Ragnarsson: „Vanstillta kanínan eftir Tsjekov”

Ræstitæknir í leikhúsi þarf að horfast í augu við sjálfan sig og brostna drauma þegar hann sér atburði úr eigin lífi sviðsetta.

Signý Rós Ólafsdóttir: „Vonardagur”

Emma gistir hjá afa sínum á afmælisdegi ömmu, sem er nýlega fallin frá. Afi vill halda upp á daginn en Emma vill það ekki. Tvær sorgir mætast og ólík lífsviðhorf takast á.

Samúel Lúkas Rademaker: „Submit”

Nýútskrifaður kvikmyndagerðarmaður er leiddur á siðferðislega flókna braut af dagskrárstjóra virtrar kvikmyndahátíðar.

Jóna Gréta Hilmarsdóttir: „Snjóþungi”

Á hefðbundnum vinnudegi í fjárhúsinu lendir einræni bóndinn Þormar í snjóflóði. Þar sem hann liggur fastur undir snjónum óttast hann ekki aðeins um eigið líf heldur einnig um örlög eiginkonu sinnar, Hrafnhildar, og sonar þeirra, Arons.

Salvör Bergmann: „Allt fyrir þig”

Ungur fíkniefnasali þarf að gera hreint fyrir sínum dyrum áður en mamma hans kemur í bæinn til að heimsækja hann úr fangelsi.

Vigdís Ósk Howser Harðardóttir: „Dabb”

Árið er 2035. Borgarastyrjöld geisar í Bandaríkjunum. Ófrjósemi eykst hjá konum og körlum en Fannar og Lilja eru á leiðinni í matarboð.

Markús Loki Gunnarsson: Handrit: „Skallagrímsson”

Meðan fjölskyldur berjast um völd á landnámsöld, gæti ungur drengur með arfgenga ofsareiði reynst síðasta von friðarins – eða sá sem mun kveikja eld styrjalda og blóðsúthellinga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.