Fótbolti

„Heilt yfir var ég bara sáttur“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Þorsteinn á hliðarlínunni í leik kvöldsins. 
Þorsteinn á hliðarlínunni í leik kvöldsins.  vísir

Landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson er ósammála flestum og fannst Ísland gera margt gott í tapinu gegn Finnlandi. Hann segir hundfúlt að hafa tapað en mótið ekki búið og nú þurfi bara að spýta í lófana.

„Byrjuðum leikinn illa, vorum í vandræðum í fyrri hálfleik… Mér fannst við koma fínt inn í seinni hálfleikinn og vorum hægt og rólega að ná tökum á þessu. Auðvitað varð þetta erfitt eftir að við urðum manni færri en mér fannst liðið spila vel eftir það.

Heilt yfir var ég bara sáttur, að mörgu leiti. Eftir að við urðum manni færri höfum við auðvitað engu að tapa og þá fannst mér meiri kraftur koma í okkur og meira þor. En auðvitað er alltaf hundfúlt að tapa á svona móti og í svona jöfnum leik.

Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að þetta er bara fyrsti leikurinn og við þurfum bara að halda áfram, vinna aðeins betur í hlutum og koma sterkari inn í næsta leik“ sagði Þorsteinn á blaðamannafundi eftir leik. 

Fyrirliðinn Glódís Perla þurfti að víkja af velli í hálfleik eftir að hafa tvisvar sest í grasið í fyrri hálfleik. Hún er með magakveisu og Þorsteinn sagðist ekki viss um að hún spili næsta leik.

Þorsteinn sá ekki brotið sem átti sér stað þegar Hildur Antonsdóttur var rekin af velli í seinni hálfleik og gat ekki lagt mat sitt á þann dóm.

Hann lagði hins vegar mat sitt á möguleika Íslands á mótinu. Sviss og Noregur eiga eftir að mætast innbyrðis en ljóst er að Ísland er stigalaust eftir fyrsta leik og Finnland með þrjú stig. Sex stig eru eftir í pottinum og líklega mun minnst fjögur þurfa til að komast áfram.

„Það er alveg ljóst að þetta er ekki búið, við eigum eftir að spila tvo leiki og auðvitað var þetta ekki byrjunin sem við vildum, gerum okkur alveg fulla grein fyrir því. Við mættum ekki inn í þennan leik með það hugarfar að við myndum tapa og allt það, við þurfum bara að halda áfram. Við þurfum að þora að verjast af krafti og ekki falla af þeim, stíga fram á við og verjast fram á við“ sagði Þorsteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×