Upp­gjörið: FH - Stjarnan 1-1 | Jafn­tefli von­brigði fyrir alla

Haraldur Örn Haraldsson skrifar
Andri Rúnar skoraði mark Stjörnumanna úr vítaspyrnu
Andri Rúnar skoraði mark Stjörnumanna úr vítaspyrnu vísir/Ernir

FH tók á móti Stjörnunni í kvöld í 14. umferð Bestu deildar karla. Leikurinn endaði í 1-1 jafntefli en það hefðu getað verið skoruð svo miklu fleiri mörk.

FH byrjaði leikinn af gríðarlegum krafti í rigningunni og hleyptu af skoti eftir skoti á fyrstu mínútunum. Það voru hins vegar Stjörnumenn sem komust næst því að skora þegar Benedikt Warén skaut í stöngina á 8. Mínútu leiksins.

FH-ingar héldu áfram að herja að marki Stjörnumanna og á 23. mínútu komst Kjartan Kári í dauðafæri eftir frábæran undirbúning frá Úlf Ágúst. Kjartan virtist ætla að skora en Þorri Mar bakvörður Stjörnunnar renndi sér á eftir honum og náði að koma sér fyrir skotið.

Kjartan Kári hefði getað skorað snemma í leiknum.Ernir Eyjólfsson/Vísir

FH myndi sjá eftir því að nýta ekki þennan tíma sem þeir voru miklu betra liðið því á 42.mínútu fékk Stjarnan vítaspyrnu. Þá er boltinn að berast til Andra Rúnars inn í teig sem ætlar í skotið en Tómas Orri kemst fram fyrir hann. Þeir fella þá báðir við þegar Andri sparkar í Tómas en Helgi Mikael dómari leiksins dæmir víti. Andri tók vítið sjálfur og skoraði úr því.

Andri Rúnar skoraði úr víti.Ernir Eyjólfsson/Vísir

Aðeins tveimur mínútum síðar fékk svo FH víti. Þá er mikill barningur inn í teig og boltinn berst á Björn Daníel. Hann nær að pota í boltann sem fer svo aftur fyrir en í sama augnabliki keyrir Árni Snær markvörður Stjörnunnar aftan í hann. Kjartan Kári tók vítið fyrir FH, tekur skrítið tilhlaup og Árni ver spyrnuna hjá honum. Slök spyrna hjá Kjartani, en tek ekkert af Árna sem varði þetta vel.

Hálfleikstölur 0-1 fyrir Stjörnunni í bráðskemmtilegum fyrri hálfleik.

FH-ingar byrjuðu seinni hálfleikinn af sama krafti og þeir byrjuðu þann seinni en það var ekki úr eitt af þeirra góðu sóknum sem þeir jöfnuðu leikinn. Úlfur Ágúst fékk boltann þegar hann var nýkominn inn á vallarhelming Stjörnunnar. Hann sér að Árni Snær sé aðeins illa staðsettur og ákveður að skjóta. Skotið er frábært, yfir Árna og syngur í netinu.

Úlfur Ágúst skoraði frábært mark í dag.Ernir Eyjólfsson/Vísir

Eftir þetta varð leikurinn að þvílíkri baráttu. Tæklingar flugu hægri, vinstri, og stúkan fór að pirra sig út í dómara leiksins. Stjarnan átti betri kafla í lok leiks þar sem þeir voru að leita að sigurmarkinu. Benedikt Warén komst í gott færi á sjöttu mínútu uppbótatíma en Rosenörn varði frá honum.

Jafntefli niðurstaðan í þessum stórskemmtilega leik.

Atvik leiksins

Mark Úlfs á 57. mínútu leiksins var alveg frábært. Að sjá að Árni sé illa staðsettur og að framkvæma skotið svona vel, alveg frábært einstaklingsframtak.

Stjörnur og skúrkar

Úlfur Ágúst fær hrós fyrir markið sitt, auk þess sem mér fannst Bjarni Guðjón mjög góður í sínum fyrsta byrjunarliðsleik á tímabilinu.

Árni Snær í marki Stjörnunnar á í raun heima í báðum flokkum. Hann varði oft vel, þar á meðal vítaspyrnuna. Hins vegar þá var það hann sem braut á sér í vítinu og hann var illa staðsettur í marki FH.

Dómararnir

Helgi Mikael átti ekki frábæran leik. Fyrra vítið var rangt af mínu mati, þó það seinna var líkast til rétt. Svo missti hann leikinn upp í smá vitleysu í seinni hálfleik.

Stemning og umgjörð

Það var mikil harka í leiknum.Ernir Eyjólfsson/Vísir

Þrátt fyrir hellidembu og strekkings vind í Hafnafirðinum í kvöld var mætingin fín en áhorfendatölur voru 867 í stúkunni. Stuðningurinn úr báðum áttum var til fyrirmyndar, mikið sungið og trallað.

Viðtöl 

Jökull: Frammistaðan frábær, vantaði bara slúttin

Jökull I. Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar.vísir / ernir

„Ég var ánægður með liðið, það hefur vantað upp á hjá okkur í síðustu tveimur leikjum. Ég var rosalega ánægður með hugarfarið og ákefðina“ sagði Jökull I. Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, fljótlega eftir leik.

Markið sem Stjarnan fékk á sig var mjög klaufalegt, en var það einhverjum að kenna?

„Mér finnst þetta vel gert hjá þeim, [Úlfur Águst] er fljótur að hugsa en svo þarf ég bara að skoða það betur, ég átta mig ekki alveg á því, man ekki hvernig við töpuðum boltanum eða misstum hann. Átta mig ekki alveg á því en bara vel gert hjá þeim.“

Best dæmdi leikurinn í langan tíma

Jökull var sammála vítaspyrnudómnum sem var dæmdur á FH, en hjartanlega ósammála vítaspyrnudómnum sem var dæmdur á Stjörnuna, eins og búast mátti við.

„Annars fannst mér þetta bara frábærlega dæmdur leikur, best dæmdi leikur sem ég hef séð í langan tíma. Það er erfitt að láta svona leik fljóta og leyfa svona mikinn contact, en halda línunni. Yfirleitt byrja menn að dæma upp úr þurru en mér fannst þetta fá að fljóta og elska svoleiðis fótboltaleiki.“

Stjarnan fékk færi til að setja sigurmarkið sem liðið nýtti ekki nógu vel.

„Það koma svona þrír kaflar í leiknum þar sem við erum mjög líklegir til að setja mark en vantaði bara slúttið. Svo var [Mathias Rosenörn] náttúrlega frábær í markinu hjá þeim, örugglega hans besti leikur í sumar…

En það er ekkert mál að ganga frá leiknum eftir svona frammistöðu. Við getum byggt ofan á þessu en síðustu tveir leikir, það hefur verið erfiðara að ganga frá þeim. Ég var mjög ánægður með liðið og ef við höldum svona áfram þá detta færin okkar megin“ sagði Jökull að lokum.

Úlfur: Hlustaði á Mathias og meðvindinn

Úlfur Ágúst skoraði mark FH.vísir / ernir

„Mér fannst drullusvekkjandi að ná ekki í þrjú stig hérna í kvöld, áttum alveg séns en óheppnir að ná ekki að klára þetta… Við fengum alveg færin, bæði í fyrri og seinni hálfleik, þurfti bara seinustu snertinguna“ sagði Úlfur Ágúst Björnsson, framherji FH, fljótlega eftir leik.

Úlfur skoraði frábært mark, rétt fyrir framan miðju, og þakkaði markmanni FH fyrir að hafa gefið sér góð ráð.

„Ég vissi að hann væri smá framarlega og svo sagði [Mathias Rosenörn] að það væri meðvindur og maður ætti bara að skjóta hvar sem er“ sagði Úlfur og ítrekaði mikilvægi þess að hlusta á markmennina.

„Ég hlustaði bara á hann. Hann var þarna og kann á þessa gaura.“

Undir lokin virkaði Stjarnan sem líklegri aðilinn til að setja sigurmarkið en FH fékk sömuleiðis færi.

„Við hefðum bara þurft að nýta þessar skyndisóknir sem við fengum en vörðumst vel og náðum að loka markinu sem betur fer, þrátt fyrir að þeir hafi alveg herjað að okkur.“

FH er enn ósigrað í Kaplakrika eftir að hafa spilað sex heimaleiki, Úlfur segir mikilvægt að halda því vígi.

„Rosalega mikilvægt. Við virðum Krikann mjög vel og ætlum að halda því þannig, þetta er okkar vígi og það er mjög mikilvægt fyrir okkur.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira