Lífið samstarf

Góð ráð fyrir garðinn í sumar

Flottasti garður landsins
Jakob Axel Axelsson garðyrkjufræðingur gefur lesendum Vísis góð ráð varðandi garðinn í sumar.
Jakob Axel Axelsson garðyrkjufræðingur gefur lesendum Vísis góð ráð varðandi garðinn í sumar.

Á hverju vori fer fiðringur um garðáhugafólk þegar skammdeginu lýkur og hlýna fer í veðri. Að ýmsu er að huga á vorin til að garðurinn dafni sem best og raunar skiptir líka máli hvaða verk eru unnin af hendi yfir sumarið og þegar haustið ber að garði.

Í Garðheimum má finna flest það sem garðáhugafólk þarf fyrir garðinn, svo sem verkfæri, tré og plöntur, garðhúsgögn, mold og áburð, potta og margt fleira. Auk þess veitir starfsfólk Garðheima viðskiptavinum sínum góð ráð og er einn þeirra Jakob Axel Axelsson garðyrkjufræðingur.

Hann segir hér lesendum Vísis frá því helsta sem þarf að hafa í huga svo garðurinn dafni vel og lengi.

Hvað þurfa garðeigendur helst að hafa í huga á vorin?

„Of margir garðaeigendur gera þau mistök að hreinsa of snemma frá fjölæringum og að geyma klippingar á trjám fram á sumar,“ segir Jakob. „Það er best að standa í grófustu trjáklippingunum á útmánuðum vetrar eða snemma að vori. Eins vanmetur fólk oft hættuna á næturfrosti. Það má segja að hættan á næturfrosti sé liðin þegar hitinn við Scoresby-sund á Grænlandi er búinn að vera stöðugur yfir frostmarki í nokkra daga.“

„En eru margir að fylgjast með þessu?,“ spyr blaðamaður undrandi.

„Ekki nógu margir,“ segir Jakob og hlær. „En garðyrkjubændur hafa lengi notast við þetta viðmið og ég sjálfur líka og þetta hefur a.m.k. reynst mér vel. Að jafnaði er þetta tímabilið 15. maí til 1. júní en strangt til tekið getur næturfrostið hrellt okkur fram að þjóðhátíðardegi.“

En hver eru helstu verkefnin sem garðeigendur þurfa að huga að yfir hásumarið?

„Það eru ákveðin verkefni sem fólk mætti huga betur og oftar að sem geta lagað ásýnd garðsins mikið. Þar má t.d. nefna kantskurð á grasflöt sem mætti ráðast í tvisvar á ári. Kantskurður gerir mikið fyrir heildarútlit garðsins og skerpir betur á því hvar flöt og beð byrja og enda auk þess sem svæði plantnanna verða skýrari.“

Hann segir líka að garðeigendur þurfi að skipuleggja garðinn betur, oft vanti ákveðna heildarsýn. „Ég spyr oft viðskipta vini: „Hvað viltu gera við garðinn og hvað á hann að gera fyrir þig.“ Því er gott að teikna upp grófa beinagrind af garðinum og skoða öll svæðin. Spyrja sig síðan til hvers hvert og eitt þeirra er notað og hvaða tilfinningar á það svæði að vekja hjá garðeigandanum. Þetta þarf samt alls ekki að vera heilagt því á sama tíma þarf að vera óregla í skipulaginu. Garðurinn er hér fyrir okkur.“

En hver eru algengustu mistökin sem garðeigendur gera?

„Persónulega finnst of mikið notað af skordýraeitri. Þegar það er notað í miklum mæli býr það til garð sem verður háðari skordýraeitri en aðrir garðar. Eitrið drepur ekki bara það sem við viljum drepa heldur líka skordýr sem eru með okkur í liði og drepa ýmsar óværur sem við viljum sigrast á.“

Einnig finnst honum fólk planta lauftrjám og barrtrjám oft þétt saman. „Svo fellir þú lauftré og þá stendur eftir hálft barrtré því þau hafa skyggt á hvort annað. Einnig eru margir of fljótir að fella há tré í stað þess að snyrta þau. Margir ofmeta nefnilega þörf á sól og vanmeta mikilvægi skjólsins sem stóru trén veita . En krónuþynningar eru mjög mikilvægar í slíkum pælingum.“

Hverju þurfa garðeigendur helst að huga að í haust til að undirbúa garðinn fyrir veturinn?

„Það þarf t.d. að skýla plöntum vel sem eru að fara í gegnum sinn fyrsta vetur og ekki hreinsa of mikið úr garðinum. Það þarf að leyfa laufblöðum að liggja í beðum því þau verja jarðveginn og trén. Því er nóg að taka grófan frágang á haustin og reyna að koma garðinum snyrtilegum inn í veturinn en alls ekki gera of mikið. Margir gleyma því líka að haustið er besti tíminn til að gróðursetja tré og runna. Þetta er sá árstími þar sem rignir oft mikið en það hjálpar rótunum sem eru þá í útrás.“

Eru einhverjar skemmtilegar nýjungar í sölu hjá ykkur um þessar mundir?

„Við höfum stórbætt úrvalið af eðaltrjám en þar má helst nefna falleg skrauttré sem við aðskiljum frá skógartrjám. Eðaltré eru m.a. askur, hlynur , gullregn, beyki og eik. Þetta eru tré sem þurfa að jafnaði skjól en flest eru þau nógu hörð til að gera orðið stór tré í venjulegum görðum innanbæjar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.