Innlent

Fundu kannabisplöntur við hús­leit

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði hald á kannabisplöntur í nótt.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði hald á kannabisplöntur í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu framkvæmdi húsleit í umdæmi sínu og fundust kannabisplöntur ásamt búnaði sem ætlaður var fyrir ræktun. Lagt var hald á plönturnar og búnaðinn.

Þetta kemur fram í dagbók Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en eftir nóttina gista þrír í fangageymslu lögreglu.

Einnig hafði lögregla afskipti af einstaklingi sem grunaður er um sölu og dreifingu fíkniefna. Við leit fundust fíkniefni og reiðufé og var einstaklingurinn vistaður í fangaklefa. Kemur fram að lögreglu grunar að einstaklingurinn dvelji ólöglega hér á landi.

Lögregla hafði mikil afskipti af ökumönnum og sektaði meðal annars fyrir að aka á nagladekkjum og fyrir aka án gildra ökuréttinda. Sá síðarnefndi framvísaði, er lögreglu grunaði, fölsuðum skilríkjum og hefur viðkomandi verið kærður fyrir skjalafals. Þá voru fjórtan ökumenn kærðir fyrir að aka undir áhrifum áfengis eða fíkniefna, þar af einn sem var með barn meðferðis í bílnum.

Einnig barst lögreglu tilkyninng um veiðiþjófnað undir Gullinbrú en er hana bar að garði var veiðimaðurinn farinn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×